Fótbolti

Platini vill bæði marklínutækni og fimm dómara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA.
Michel Platini, forseti UEFA. Mynd/NordicPhotos/Getty
Michel Platini, forseti UEFA, virðist nú ætla að opna fyrir möguleikann á því að marklínutæknin verði notuð á EM í Frakklandi 2016.

Þetta er hálfgerð U-beygja hjá Platini sem hefur hingað til talað á móti því að nota tæknina í fótboltanum,. Platini nefndi mikinn kostnað og óhagræði þegar hann rökstuddi þá skoðun sína en hefur nú breytt um skoðun.

Marklínutæknin er í notkun í ensku úrvalsdeildinni og verður einnig notuð á HM í fótbolta í Brasilíu næsta sumar. Það er því erfitt fyrir Platini að berjast lengur á móti innrás tækninnar í fótboltann.

„Það á að nota marklínutæknina á HM. Ég spyr því sjálfan mig að því hvort við ættum að taka hana inn á EM 2016 en þá með því að halda áfram að vera með fimm dómara," sagði Michel Platini í viðtali við spænska blaðið AS.

„Dómararnir í teignum gætu þá einbeitt sér að því að fylgjast með því sem er í gangi í og við vítateiginn og því sem gerist inn í teignum í hornum og aukaspyrnum. Með þessu ættu allir að græða," sagði Platini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×