Fótbolti

Eiður: Ég vil ekki fara frá Club Brugge

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leiknum gegn Lokeren um helgina.
Eiður Smári í leiknum gegn Lokeren um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen segir í viðtali við belgíska fjölmiðla í dag að hann hafi ekki í huga að fara frá félaginu á næstunni.

Eiður Smári hafði lítið fengið að með liði sínu, Club Brugge, spila undir stjórn þjálfarans Michel Preud'homme sem tók við liðinu um miðjan september.

Eiður hafði einu sinni verið í byrjunarliði Club Brugge þar til að hann var settur aftur í liðið í 3-0 sigri gegn Lokeren um helgina. Eiður Smári spilaði í 80 mínútur sem er það mesta sem hann hefur spilað á tímabilinu.

„Ég naut þess virkilega,“ sagði hann í viðtalinu. „Knattspyrnan er einfaldlega skemmtileg. Mér fannst líklegt að ég myndi byrja miðað við æfingu okkar á laugardaginn og þjálfarinn tilkynnti mér það síðan.“

Eiður þótti standa sig vel í leiknum en hann spilaði sem sóknartengiliður og tók virkan þátt, bæði í vörn og sókn.

„Mér fannst ég spila vel eins og allt liðið, sérstaklega þegar við vorum með boltann. Ég kann vel við að spila svona fótbolta eins og við gerðum.“

Haft var eftir Eiði Smára fyrir stuttu að hann myndi líta í kringum sig þegar opnað yrði fyrir félagaskipti um áramótin.

„Öllum finnst erfitt að fá ekki að spila. Ég vil alls ekki fara frá félaginu. Þvert á móti er það undir mér komið að sanna mig. Samkeppni er eðlilegur hluti af íþróttinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×