Innlent

Hundsbit vaxandi vandamál hjá Póstinum

Boði Logason skrifar
Brynjar Smári segir að hundsbit séu vaxandi vandamál í þéttbýli, enda hafi hundum fjölgað mikið þar.
Brynjar Smári segir að hundsbit séu vaxandi vandamál í þéttbýli, enda hafi hundum fjölgað mikið þar.
Kona á sextugsaldri lagði fram kæru hjá lögreglu í vikunni eftir að hundur beit hana til blóðs þegar hún var að bera út póst. Forstöðumaður markaðssviðs Póstsins segir hundsbit séu vaxandi vandamál í þéttbýli.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum var konan að stinga póstinum inn um lúgu íbúðarhúsnæðis þegar hundurinn beit hana í höndina svo að úr blæddi. Lögreglan hafði samband við eigendur tveggja hunda sem voru í íbúðarhúsnæðinu og tilkynntu þeim um atvikið. Þá var einnig tilkynning send til hundaeftirlitsins vegna málsins.

Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins, segir í samtali við Vísi að bréfberum sé oft ógnað af hundum.

„Það eru á bílinu 5 til 10 alvarleg atvik á hverju ári þar sem hundar bíta bréfabera og svo er þeim sífellt ógnað af hundum. Þetta er sívaxandi vandamál enda hefur hundum fjölgað mikið á þéttbýlissvæðum síðustu ár,“ segir hann.

Pósturinn hefur brugðist við þessu með því að ræða við hundaeigendur, og benda þeim á að hafa hunda sína í bandi ef þeir eru utandyra og að sjá til þess að þeir geti ekki nálgast bréfalúgur ef þeir eru innandyra.

„Við viljum samvinnu við hundaeigendur. Við höfum einnig haldið námskeið fyrir bréfberana okkar þar sem þeir hafa fengið sérfræðikennslu í því hvernig eigi að bregðast við í svona aðstæðum,“ segir hann.

Þá er bréfberum einnig heimilt að sleppa því að bera út í tiltekin hús þá daga sem hundur er laus eða kemst í gönguleið bréfbera. Sem veldur því að pósturinn kemst ekki til skila á réttum tíma.

„Við viljum að sjálfsögðu koma öllum pósti til skila á réttum tíma og viljum samvinnu með hundaeigendum til að geta gert það,“segir Brynjar Smári að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×