Innlent

Gífurleg vonbrigði með skilningsleysi ráðamanna

Mynd/GVA
Fjölmennur fundur lækna í læknaráði fór fram í dag. Læknar lýsa yfir furðu sinni og gífurlegum vonbrigðum með skilningsleysi ráðamanna þjóðarinnar á vanda Landspítalans, sem endurspeglast í því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir Alþingi fyrir árið 2014.

„Ljóst er að staðan á Landspítala eftir langvinnt fjársvelti er algjörlega óásættanleg fyrir allan almenning sem og sjúklinga og starfsmenn spítalans. Fagfélög og stéttarfélög lækna og annarra heilbrigðisstétta hafa endurtekið bent á þær hættur sem slíkur langvinnur niðurskurður á rekstrarfé til spítalans hefur í för með sér. Aðbúnaður sjúklinga er óásættanlegur, eðlilegu viðhaldi og endurnýjun á tækjabúnaði spítalans er ábótavant, viðhaldi á húsnæði spítalans hefur ekki verið sinnt, atgervisflótti starfsmanna frá spítalanum er raunveruleiki með tilheyrandi auknu álagi á þá starfsmenn sem starfa áfram, rannsókna- og kennsluhlutverk spítalans situr á hakanum og svo mætti lengi telja.

Að okkar mati er þjóðarsátt um það að styrkja þessa grunnstoð íslensks heilbrigðiskerfis sem Landspítalinn er. Það verður ekki gert nema með verulega auknu fjármagni til reksturs spítalans.

Læknaráð Landspítala skorar á Alþingi Íslands að endurskoða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014 með því leiðarljósi að setja Landspítalann í forgang og tryggja þannig nauðsynlega fjárveitingu til að hefja þá uppbyggingu sem er svo nauðsynleg starfseminni,“ segir í ályktun læknaráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×