Innlent

Byssusala meiri nú en undanfarin ár

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Rjúpnaveiðin er hafin.
Rjúpnaveiðin er hafin.
Fyrsti í rjúpu er í dag og segir skotvopnasali mikla stemmningu hafa verið fyrir komandi vertíð, en byssusala er meiri nú en undanfarin ár.

Alls mega veiðimenn skjóta rjúpur í tólf daga í haust, en það er þessa helgi og svo næstu þrjár á eftir. Fyrsti dagurinn er í dag og má því segja að þorláksmessan í veiðimannaverslunum hafi verið í gær. Gunnlaugur Jónsson, hjá Vesturröst, segir mikla stemmningu hafa verið fyrir komandi vertíð. „Það eru greinilega fleiri að fara af stað, fleiri búnir að taka byssupróf fyrir þetta tímabil og meira um byssusölu,“ segir hann.

Gunnlaugur segir veiðimenn hér á landi vera mjög háða veðri og utanaðkomandi aðstæðum og finnst honum að úthluta eigi veiðidögum á menn og þeir ákveði svo hvenær þeir nýti sér þá. „Þannig að þeir geti skipulagt sig betur, því ef það gerist eins og það gerðist í fyrra, þá var mjög vont veður fyrstu tvær eða þrjár helgarnar. Það bara skilaði sér í því að helgarnar duttu í raun bara dauðar niður,“ segir hann.

Umhverfisstofnun hvatti veiðimenn fyrir tímabilið að gæta hófsemi við rjúpnaveiðina og minnti sérstaklega á að sölubann er á rjúpu og rjúpnaafurðum. Eins eru veiðimenn hvattir til að gæta fyllsta öryggis og fylla út ferðaáætlun sem einhver heima við veit af, en slíka áætlun má finna inni á safetravel.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×