Innlent

„Sama ónotatilfinningin sem fylgir þessu heima og hér“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Heimir býr í Tókýó þar sem hann lærir japönsku.
Heimir býr í Tókýó þar sem hann lærir japönsku.
Gefin hefur verið út flóðbylgjuviðvörum á nokkrum svæðum í Japan eftir að öflugur jarðskjálfti reið þar yfir fyrir skömmu. Viðvörunin nær meðal annars yfir Fukushima-kjarnorkuverið, en þar er enn töluverð geislamengun eftir að verið eyðilagðist í náttúruhamförum árið 2011.

„Ég var nú bara frammi í stofu að læra,“ segir Heimir Hannesson, en hann er búsettur í Tókýó þar sem skjálftinn fannst vel. Hann mældist 7,3 á Richter og átti upptök sín um 320 kílómetra austur af strönd Japans.

„Þetta stóð yfir í hálfa til heila mínútu, “segir Heimir en hann hefur búið í Japan í mánuð og segir að margir hafi sagt honum að búa sig undir tíða skjálfta. „Fólk er orðið vant þessu hér en það er alltaf sama ónotatilfinningin sem fylgir þessu heima og hér.“

Skjálftinn reið yfir klukkan tíu mínútur yfir tvö eftir miðnætti og því lítið af fólki á ferli. „Maður sá ljósin kvikna í nærliggjandi blokkum,“ segir Heimir en hann býr á móti stóru hóteli. „Það voru mjög mörg ljós sem kviknuðu á hótelinu. Minna í japönsku húsunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×