Innlent

Viðskiptavinir sviknir um afslátt

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fjölmargir lögðu leið sína í Korputorg til þess að nýta sér tax free afslátt.
Fjölmargir lögðu leið sína í Korputorg til þess að nýta sér tax free afslátt. Mynd/Elín
„Fólk er öskureitt,“ segir Elín Guðrúnardóttir, en hún hugðist í hádeginu nýta sér auglýstan afslátt Toys R‘ Us. Korputorg hafði auglýst svokallaða tax free helgi í öllum verslunum sínum yfir helgina. Þá gefa búðir afslátt sem nemur um tuttugu prósenta verðlækkun. „En nú er miði á hurðinni sem á stendur: Tax free afsláttur gildir ekki í dag hjá okkur í Toys R‘Us,“ segir Elín. Að hennar sögn komu fjölmargir í búðina, sem opnaði klukkan 12, í því skyni að versla jólagjafir og margir utan af landi.

„Starfsmennirnir hér yppa bara öxlum og segja að Korputorg hafi auglýst fyrir þeirra hönd og að þau ætli ekki að taka ábyrgð á þessu,“ segir Elín. Sá sem ræður yfir afslættinum er í útlöndum og bíða nú starfsmenn eftir símtali frá þeim aðila. „Verslunarstjóri segist ekki getað tekið ábyrgð á þessu, hann hafi ekki leyfi til þess.“ Hún spyr hvort ekki þurfi að bregðast eitthvað við þessu, það stoði ekki að yppa bara öxlum. 

„Það er verið að vinna í þessu,“ sagði verslunarstjórinn þegar Vísir náði af honum tali. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið. Í auglýsingu sem birtist á vefsíðu Korputorgs segir: „Helgina 26. - 27.október eru Tax Free dagar á Korputorgi. Tax Free gildir hvorki í Bónus né af gæludýrafóðri hjá Gæludýr.is. Toys'R'us býður Tax Free 26. og 27. október. Tax Free gildir aðeins af smávöru hjá Útilegumanninum. Tax Free jafngildir 20,32% afslætti nema annað sé tekið fram. Allar verslanir greiða sinn virðisaukaskatt, en bjóða afslátt sem honum nemur.“

Uppfært: Verslunarstjóri búðarinnar segist hafa náð í sölustjóra og að málið sé leyst. Nánar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×