Fótbolti

Gylfi Þór: Ekki mitt fallegasta mark

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Mynd/Valli
„Þetta var skyldusigur til að halda okkur áfram í séns að komast í umspilið. Við spiluðum ágætlega í fyrri hálfleik og vorum óheppnir að skora ekki fyrr," sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins eftir leikinn.

„Við vissum að þetta væri spurning um að vera rólegir, halda þolinmæðinni og þetta myndi koma. Það var frábært að ná að klára þetta 2-0,"

Íslenska liðið pressaði hátt í leiknum og gáfu gestunum ekkert pláss til að spila boltanum.

„Við ætluðum að pressa þá hátt og koma þeim í vandræði. Við ætluðum líka að reyna að ná marki í fyrri hálfleik en sem betur fer kláruðum við leikinn í lokin. Við vorum mjög góðir varnarlega, pressuðum ofarlega og varnarlínan fylgdi okkur vel. Við vorum að fá mikið af seinni boltum inn á miðjuna þegar vörnin vann skallabolta,"

Aðstæðurnar í kvöld voru ágætar þótt það hefði blásið nokkuð hressilega.

„Það hentaði okkur betur að spila gegn vindinum í seinni hálfleik. Völlurinn var þurr og við gátum notað vindinn til að senda innfyrir vörnina hjá þeim þar sem Kolbeinn og Alfreð voru,"

Íslenska liðið skoraði annað mark þegar korter var til leiksloka og gekk það langt með að klára leikinn. Fljótlega komu Gylfi og Aron útaf enda báðir tæpir á gulu spjaldi.

„Það var frábært að ná seinna markinu, það kláraði leikinn. Við vissum að ef við kæmumst í 2-0 væri bara formsatriði að klára leikinn,"

Umdeilt var hvort mark Gylfa hefði verið hans eigið eða hvort boltinn hefði farið af varnarmanni og í netið.

„Neinei, þetta er mitt mark, boltinn er á leiðinni inn. Þetta var ekki mitt fallegasta mark, ég fékk boltann í hausinn og sem betur fer lét Kolli hann fara, hann var að koma úr rangstöðunni. Hann var góður við mig og lét hann fara inn,"

Örlög íslenska liðsins eru enn í eigin höndum, með sigri á þriðjudaginn tryggir íslenska liðið sér leik í umspili upp á sæti á HM 2014.

„Við erum búnir að vera að bíða eftir þessu tækifæri í langan tíma. Markmiðið okkar fyrir keppnina var að vera í séns á þessu fyrir lokaleikinn og núna verðum við bara að vera tilbúnir í þann leik," sagði Gylfi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×