Fótbolti

Ísland þarf að ná úrslitum á pari við Slóvena

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
Karlalandslið Íslands í knattspyrnu er í dauðafæri á sæti í umspili fyrir HM í Brasilíu næsta sumar eftir 2-0 sigurinn gegn Kýpur í kvöld.

Strákarnir okkar sitja sem fastast í öðru sæti riðilsins með 16 stig en Slóvenar hafa 15 stig. Sviss tryggði sér sigurinn í riðlinum með sigri í Albaníu í kvöld og hafa því í sjálfu sér að litlu að keppa þegar Slóvenar koma í heimsókn á þriðjudag.

Sömu sögu er að segja um Norðmenn sem hafa 12 stig í fjórða sæti riðilsins. Staða íslenska liðsins er því einföld. Liðið má ekki ná lakari úrslitum í Osló en Slóvenar ná í Sviss.

Vinni Slóvenar sigur á Sviss verður Ísland að vinna sigur í Noregi.

Geri Slóvenar jafntefli í Sviss verður Ísland að ná stigi í Noregi.

Tapi Slóvenar í Sviss fer Ísland í umspil þrátt fyrir tap í Noregi.

Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck lagði þó áherslu á að sótt yrði til sigurs í Noregi. Fylgst yrði þó með gangi mála í Sviss. Væri gangur leiksins í Sviss íslenska liðinu í hag myndu íslensku strákarnir taka mið af því og sýna varkárni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×