Fótbolti

Eiður Smári: Erum með betra lið en Kýpur

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eiður Smári og Birkir
Eiður Smári og Birkir
„Skyldusigur er kannski full gróft orð en þetta var vissulega sigur sem fólk mátti búast við miðað við styrkleika og stöðu í riðlinum," sagði Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður íslenska landsliðsins eftir leikinn.

„Það er aldrei neitt gefið í þessu og við þurftum að hafa fyrir þessu í kvöld, það er ljóst. Leikurinn spilaðist ágætlega þótt aðstæður væru erfiðar,"

Íslenska liðið pressaði stíft strax frá fyrstu mínútu og var ljóst að þeir ætluðu sér stigin þrjú í kvöld.

„Það hefði verið óskastaða að ná marki í fyrri hálfleik en við héldum áfram að pressa í seinni hálfleik. Markið sem við fáum í seinni hálfleik róar þetta mjög og annað markið drap leikinn rétt eins og við vildum."

„Það sýndi sig vissulega í kvöld að við erum með betra lið og með betri einstaklinga innanborðs. Það er samt ekkert alltaf nóg, menn þurfa að vera með einbeitingu og spila sem lið og við gerðum það í kvöld. Við spiluðum eiginlega bara eins og við vildum hafa þetta,"

Þrátt fyrir þunga pressu gekk íslenska liðinu illa að skapa sér hættuleg færi í fyrri hálfleik.

„Það var ekkert lokasendingin, það vantaði bara að troða boltanum í netið. Það kom samt aldrei nein örvænting í okkur, við vorum alltaf rólegir. Við komum inn í klefa í hálfleik og vissum að við höfðum spilað vel en það vantaði bara mörkin. Við vissum að ef við myndum halda áfram myndi þetta koma,"

Við tekur spennandi verkefni á þriðjudaginn þegar Ísland mætir Noregi í Osló. Með sigri tryggir liðið sér leik í umspili um sæti á HM.

„Þetta er draumastaða, við komum inn í þessa tvo leiki og vonuðumst til að fara til Noregs með þetta í okkar höndum. Núna er bara að undirbúa sig vel og reyna að grípa þetta tækifæri," sagði Eiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×