Fótbolti

Jóhann Berg: Þurfum að finna leiðir í gegnum þessa sterku vörn

Stefán Árni Pálsson skrifar
"Það er alltaf mikil stemmning í hópnum og mikil tilhlökkun fyrir þessa tvo landsleiki,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Ísland mætir Kýpur í undankeppni HM 2014 á Laugardalsvelli á föstudagskvöldið. Jóhann Berg sló rækilega í gegn í síðasta landsleikjahléi þegar hann skoraði þrennu gegn Svisslendingum í 4-4 jafntefli ytra.

„Við ætlum okkur að sjálfsögðu að fara í þessa tvo leiki til þess að komast í umspilið og þá verðum við að vinna á föstudaginn.“

Ísland tapaði fyrir Kýpur ytra 1-0 fyrr í riðlakeppninni en Kýpverjar eru í neðsta sæti riðilsins og Ísland í því öðru.

„Við erum ofar en þeir á styrkleikalistanum og okkur hefur verið að ganga vel að undanförnu og þá fer fólk að tala um að þetta eigi að vera öruggur sigur hjá okkur. Þetta er samt gott fótboltalið, sérstaklega varnarlega og við verðum að finna einhverjar leiðir í gegnum þá.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×