Enski boltinn

Moyes vill að leikmenn svari fyrir sig

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Ég kom nokkrum sinnum hingað með Everton en við töpuðum aldrei jafnilla og nú,“ sagði David Moyes, stjóri Manchester United, eftir 4-1 tapið gegn City.

Englandsmeistararnir voru niðurlægðir á löngum köflum í leiknum. Glæsimark Wayne Rooney undir lokin var lítil sárabót heldur frekar áminning um að Rooney hefði verið sá eini sem stóð undir nafni hjá þeim rauðklæddu.

„Ég hef látið leikmenn mína vita hvernig ég vil að þeir svari þessum leik,“ sagði Moyes á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Ef maður á að geta reiknað með því frá einhverjum hópi leikmanna þá er það hjá Manchester United. Þannig hafa þeir verið aldir upp,“ bætti sá skoski við.

Eftir tapið situr United í 8. sæti deildarinnar með sjö stig eftir fimm leiki. Liðið hefur tapað stóru leikjunum, úti gegn Liverpool og City, auk þess sem liðið gerði jafntefli heima gegn Chelsea. Eitt stig af níu mögulegum í stóru leikjunum.

Liðið saknaði Robin van Persie sem glímdi við nárameiðsli í leiknum.

„Fjarvera Robin var mikil blóðtaka fyrir okkur en mér fannst Wayne Rooney besti leikmaðurinn á vellinum. Hann átti ekki skilið að vera í tapliðinu,“ sagði Moyes sem minnti á að röðun leikja í upphafi leiktíðar hefði ekki hjálpað.

„Ég tel að allir stjórar með þessa leikjadagskrá hefðu lent í erfiðleikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×