Fótbolti

Sterkari liðin mæta þeim veikari

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frakkar mættu Írum í umspilsleikjum fyrir HM 2010. Thierry Henry var á allra vörum enda notaði hann höndina þegar hann lagði upp sigurmark Frakka.
Frakkar mættu Írum í umspilsleikjum fyrir HM 2010. Thierry Henry var á allra vörum enda notaði hann höndina þegar hann lagði upp sigurmark Frakka. Nordicphotos/AFP
Allar líkur eru á því að takist Íslandi að hafna í 2. sæti E-riðils í undankeppni HM 2014 þá dugi það til þess að koma liðinu í umspil. Nánari umfjöllun um það má sjá hér.

Síðustu leikirnir í riðlakeppninni fara fram þriðjudaginn 15. október. Þá mun liggja fyrir hvaða átta þjóðir fara í umspil. Tæpri vikur síðar, eða mánudaginn 21. október, verður dregið um hvaða lið mætast í umspilinu.

Sá háttur verður hafður á, líkt og í undankeppni fyrir HM árið 2010, að styrkleikalisti FIFA verður notaður til þess að ákvarða hvaða lið mætast. Þannig geta fjögur sterkustu landsliðin, samkvæmt styrkleikalistanum í október, aðeins dregist gegn þeim „veikari“.

Sömuleiðis er ljóst að sterkari liðin fá síðari leikinn á heimavelli. Leikirnir fara fram 15. og 19. nóvember.

Töluverð umræða spannst um fyrirkomulag umspilsins fyrir fjórum árum. Þá hafði ekki verið greint frá því að liðunum yrði raðað þannig að sterku liðin gætu ekki mæst innbyrðis. Nú liggur hins vegar fyrir að fyrirkomulagið verður með sama hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×