Fótbolti

Alfreð boðinn nýr samningur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Framherjinn Alfreð Finnbogason hefur undir höndum samningstilboð frá félagi sínu Heerenveen í Hollandi. Alfreð er þegar samningsbundinn félaginu til ársins 2015.

Hollenskir miðlar fjalla um málið í dag enda hefur Alfreð verið orðaður við brottför frá Heerenveen undanfarnar vikur. Félagið á í fjárhagsvandræðum og Alfreð heitasti biti þess.

Félagið hefur þó sagst ætla að halda Alfreð og má ætla að væn launahækkun sé í boði fyrir íslenska landsliðsframherjann ákveði hann að skuldbinda sig við félagið til lengri tíma.

Alfreð hefur skorað fjögur mörk í fyrstu þremur leikjum tímabilsins auk þess að leggja upp mörk fyrir liðsfélaga sína. Velgengni hans frá síðasta tímabili, þar sem hann skoraði 24 mörk í 31 leik, hefur því haldið áfram.

Voetbal International segir að Alfreð hafi fengið samningstilboðið um helgina. Félagaskiptaglugganum í Evrópu verður lokað í lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×