Handbolti

Guð­mundur svekktur eftir sniðgöngu: „Finnst þetta dóna­legt“

Aron Guðmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson furðar sig á því að hafa ekki verið boðið að taka þátt í heimildarmynd um uppgang og sigursæla tíma danska landsliðsins í handbolta.
Guðmundur Guðmundsson furðar sig á því að hafa ekki verið boðið að taka þátt í heimildarmynd um uppgang og sigursæla tíma danska landsliðsins í handbolta. Vísir/Vilhelm

Guð­mundur Guð­munds­son, fyrr­verandi lands­liðsþjálfari Dan­merkur í hand­bolta, er svekktur með að hafa ekki verið boðið að taka þátt í heimildar­mynd um upp­gang og sigursæla tíma liðsins. Fyrr­verandi leik­menn gagn­rýna ýmis vinnu­brögð hans í myndinni. Guð­mundur segir þá bak­tala sig og fara með rangt mál.

Í nýrri heimildar­mynd, sem sýnd var á TV 2 í Dan­mörku í kvöld og birt samtímis á YouTu­be rás EHF og ber nafnið Founding Fathers eru mikils metnir menn frá upp­gangstíma danska karla­lands­liðsins í hand­bolta fengnir til þess að spjalla saman um sigursæla tíma liðsins. Er þar að finna núverandi og fyrr­verandi leik­menn liðsins sem og þjálfara á borð við Nicolai Jacob­sen og Ul­rik Wil­bek.

At­hygli vekur þó að Guð­mundur Guð­munds­son, maðurinn sem stýrði danska lands­liðinu til sigurs á Ólympíu­leikunum í Ríó árið 2016, á ekki sæti við borðið og í sam­tali við TV 2 furðar hann sig á því.

Guð­mundur tók við þjálfun danska lands­liðsins árið 2014 og stýrði því um tveggja og hálfs árs skeið þar sem gekk mikið á þegar kom að Ólympíu­leikunum árið 2016.

Greint hefur verið frá því hvernig Ul­rik Wil­bek, þáverandi íþrótta­stjóri danska hand­knatt­leiks­sam­bandsins og lands­liðsþjálfari danska lands­liðsins áður en Guð­mundur tók við, reyndi að bola Ís­lendingnum úr starfi níu dögum fyrir úr­slita­leik Ólympíu­leikanna. 

Fram­vinda sem endaði með því að leikmenn danska landsliðsins stóðu með Guðmundi og á endanum þurfti Wil­bek að taka pokann sinn og Danir unnu gullið í fyrsta sinn á leikunum.

Sögðu frelsi sitt skert

Í heimildar­myndinni sem sýnd var í kvöld ræddu Hans Lind­berg og Lasse Svan, leik­menn sem spiluðu undir stjórn Guð­mundar á þessum tíma, um breytingarnar sem urðu á högum danska lands­liðsins eftir að Ís­lendingurinn tók við og voru þeir ekki sáttir með allt.

„Það voru hlutir sem breyttust. Hvar á ég eigin­lega að byrja,“ segir Hans Lind­berg. „Við fórum í að sitja vídjófundi klukkutíma fyrir æfingu. Æfingin var kannski klukkan hálf tíu um morguninn, við vorum að mæta í morgunmat hálf átta, fórum svo á vídjófund og síðan á æfingu. Upp­lifunin var sú að við hefðum aldrei tíma til að gera neitt. Við áttum að gera svo margt á svo skömmum tíma. Ég tel að það hafi skapað smá stress í hópnum. Það var rifið strax í hand­bremsuna. Við áttum að æfa tvisvar sinnum á dag, tvo klukkutíma í senn og sitja svo tveggja klukku­stunda vídjófundi. Þetta var bara þungt.“

Hans Lindberg í leik með danska landsliðinu

Lasse Svan vill meina að frelsi leik­manna hafi verið skert frá því sem áður var.

„Við vorum vanir því að vera í smá frjálsu um­hverfi. Það varð allt svolítið tak­markað með inn­komu Guð­mundar. Hann var með skýra sýn á það hvernig hann vildi að sín lið spiluðu,“ bætti Lasse Svan við og sagði það upp­lifun margra leik­manna að Guð­mundur hlustaði ekki á þá þegar að þeir reyndu að nálgast hann með hug­myndir um leik­skipu­lag liðsins.

„Vegna þess að hlutina átti að gera á hans hátt. Það hafði gengið upp hjá honum áður en hann tók við danska lands­liðinu, ég get því skilið hans nálgun á þetta og trú hans á hug­mynda­fræði sinni. En það var menningar­munur þarna. En þetta gekk upp hjá okkur árið 2016 þrátt fyrir þetta. Það er hægt að sætta sig við margt svo lengi sem maður er að vinna leiki.“

„Stenst ekki skoðun“

Heimildar­myndin er, eins og áður sagði, fram­leidd af Evrópska hand­knatt­leiks­sam­bandinu í að­draganda komandi Evrópumóts en Guð­mundi var ekki boðið að taka þátt í um­ræðum í henni.

Í sam­tali við TV 2 hafnar Guð­mundur gagn­rýni á sín störf og undrast það að hafa ekki verið boðið sæti við borðið.

Guðmundur Guðmundsson á sínum tíma sem landsliðsþjálfari DanmerkurVísir/Getty

„Ég hef séð um­ræðuna í myndinni þar sem rætt er um mín störf og tíma­bilið frá árinu 2014 til 2017 þar sem að ég þjálfaði liðið og ég get ekki betur séð en að þar hafi nokkrir við borðið ákveðið að bak­tala mig og margt af því sem sagt er um æfingaálag og vídjófundi stenst bara ekki skoðun.

Mér finnst það dóna­legt af þeirra hálfu að veita mér ekki það tækifæri að vera viðstaddur til þess að svara nokkrum af þeim spurningum er varða mig sem bornar eru upp í myndinni. Ég er sár yfir því að hafa ekki verið boðið að taka þátt í gerð þessarar myndar.“

Guð­mundur segir að fyrr­verandi leik­mönnum hans sé frjálst að tjá sig.

„En stað­reyndirnar verða að vera réttar.“

Náði aðalmarkmiðinu

Ul­rik Wil­bek, maðurinn sem reyndi að bola Guð­mundi úr starfi á sínum tíma á hins vegar sæti við borðið og segir hann danska sam­bandið ekki hafa fyrir­séð þann menningar­mun sem var á hug­mynda­fræði Guð­mundar og þeirri sem hafði verið við lýði hjá danska lands­liðinu áður.

Ulrik Wilbek, fyrrverandi landsliðsþjálfari og íþróttastjóriVísir/getty

„Hand­bolta­lega séð sem og fag­lega var ekki hægt að setja neitt út á Guð­mund. En það sem ég hafði ekki séð fyrir, verð ég að viður­kenna, var þessi stóri menningar­munur. Þessi mikla áhersla á vídjófundi. Eitt­hvað sem leik­menn voru ekki sammála honum um. Ég þekki þó engan með jafn mikla ástríðu gagn­vart hand­bolta eins og hann. Það var bara eitt­hvað í sam­bandi við þennan menningar­mun sem við höfðum ekki fyrir­séð.“

Guð­mundur gerði þó það sem var sett fram sem aðal­mark­mið danska lands­liðsins undir hans stjórn. Að vinna til gull­verð­launa á Ólympíu­leikunum árið 2016. Í fyrsta sinn í sögu danska lands­liðsins.

„Það var mark­miðið sem við settum Guð­mundi þegar að hann var ráðinn í starfið,“ segir Ul­rik. „Það var frábært en á þeim tíma­punkti getum við í fullri hrein­skilni sagt að sam­starfið var komið á loka­metrana. Það var ekki mikið eftir af hans samningi og óánægja til staðar.“

Guð­mundi til tekna sé þó sú stað­reynd að hann sé trúr sinni hug­mynda­fræði.

„Ég tel mikilvægt að halda því á lofti að honum hafi ekki mis­tekist með danska lands­liðinu á sínum tæpu þremur árum með liðið. Hann vann fyrsta Ólympíugullið í sögu danska karla­lands­liðsins en það voru vanda­mál til staðar sem gerðu það að verkum að sam­starfið gekk bara ekki upp lengur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×