Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Fram 3-2 | Ótrúleg endurkoma tíu Stjörnustráka

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Stjörnuvelli skrifar
Mynd/Arnþór
Stjarnan vann Fram 3-2 í sveiflukenndum leik í Pepsí deild karla í kvöld. Fram var 2-1 yfir þegar Stjarnan missti mann af leikvelli. Einum færri tryggði Stjarnan sér kærkominn sigur.

Liðin mættust á laugardaginn í úrslitum bikarsins þar sem Fram vann eftir vítaspyrnukeppni. Eins og á laugardaginn hóf Stjarnan leikinn betur.

Fram fékk fyrsta færi leiksins en það leið ekki langur tími þar til Stjarnan tók öll völd á vellinum. Heimamenn sem léku undan vindi sóttu stíft þar til að Garðar Jóhannsson kom Stjörnunni yfir á 28. mínútu.

Stjarnan fékk góð færi til að bæta við marki fyrir hálfleik en Framarar fengu einnig sín færi án þess að ná að skora.

Sterkur vindurinn setti svip sinn á leikinn. Stjarnan var helst til of áköf undan vindinum á sama tíma og Fram átti í vandræðum með að færa lið sitt fram völlinn gegn rokinu í fyrri hálfleik.

Stjarnan hóf seinni hálfleikinn betur en það var Fram sem skoraði fyrsta mark hálfleiksins þegar Aron Bjarnason skoraði eftir laglega sendingu Sam Hewson á 57. mínútu.

Á 64. mínútu kom Hólmbert Aron Friðjónsson Fram þegar aukaspyrna hans fór í stöngina, Ingvar Jónsson markvörð Stjörnunnar og inn. Skömmu áður fékk Atli Jóhannsson að líta gula spjaldið og eitthvað lét hann mótlætið fara í taugarnar á sér því tveimur mínútum síðar fékk hann sitt annað gula spjald og var fyrir vikið vikið af leikvelli.

Einum færri réð Stjarnan lögum og lofum á vellinum. Liðið hélt áfram að leika með tvo sóknarmenn og sótti mun meira og Fram hélt áfram að beita skyndisóknum.

Á sex mínútna kafla skoraði Stjarnan tvö mörk og tryggði sér mikilvægan sigur í toppbaráttunni.

Stjarnan er sem fyrr í þriðja sæti, nú með 31 stig, fimm stigum á eftir FH sem hefur leikið leik meira. Fram er áfram í sjöunda sæti, sex stigum frá fallsæti.

Logi: Leit ekki vel út„Eftir að við vorum tíu og 2-1 undir þá sýna menn styrk sinn, sem er eitthvað sem ég hefði viljað sjá fyrr í leiknum,“ sagði Logi Ólafsson þjálfari Stjörnunnar eftir sigurinn í kvöld.

„Við fengum fín færi snemma í leiknum sem við náðum ekki að klára. Það var slæmt.

„Við töluðum um það í hálfleik að við þyrftum að standa vaktina þegar við töpum boltanum því þeir væru að bíða eftir því að geta sótt hratt fram og senda langa bolta fram á Hólmbert. Við þurfum að vera vakandi fyrir þessu en missum einbeitinguna þegar þeir jafna og aftur áður en þeir fá aukaspyrnuna,“ í aðdraganda seinna marks Fram sagði Logi.

„Þetta leit ekki vel út verandi 2-1 undir og manni færri. Ég ákvað að halda tveimur mönnum fremst og vera með þrjá á miðju og fjóra aftast. Við sýnum andlegan styrk hér í lokin.

„Við erum ekki í þessu til að hefna okkar. Við erum í þessu til að vinna leikina sem við leikum. Við hefðum átt að vinna þá í bikarnum en þeir voru sterkir þar í lokin og ég held að það hafi blundað í mönnum að ætla ekki að láta slíkt gerast aftur,“ sagði Logi sem fagnaði stigunum í baráttunni á toppi deildarinnar.

„Það hefði verið verulega slæmt að tapa því Breiðablik gerði jafntefli í kvöld og við erum í baráttu um þessi efstu sæti, í fjögurra, fimm liða baráttu.

Ríkharður: Þetta var kæruleysi„Við vorum verðskuldað undir í hálfleik en komum sterkir út í seinni hálfleik. Manni fleiri og marki yfir köstum við þessu frá okkur,“ sagði Ríkharður Daðason þjálfari bikarmeistara Fram.

„Við berjumst og komumst aftur inn í leikinn og yfir og þá vil ég kenna öðru um en timburmönnum. Við urðum aðeins of öruggir með okkur og héldum að þetta væri komið í stöðunni 2-1 einum fleiri. Það kann aldrei góðri lukku að stýra.

„Við ætluðum að vera þéttir og verjast aftar en við höfum verið að gera að undanförnu en við vorum alls ekki þéttir og vorum alls ekki nálægt þeim. Við stóðum bara aftar á vellinum án þess að setja á þá pressu og fáum á okkur mark og erum ekkert líklegir í hálfleiknum en komum þeim mun sterkari út í seinni hálfleik og gerum vel í að komast inn í leikinn. Þess vegna er þetta mjög svekkjandi.

„Fyrsta markmið okkar er að halda sér í deildinni og þess vegna er þetta sárt. Við erum bara með 18 stig og þurfum fleiri stig og þarna erum við 2-1 yfir og mannir fleiri þegar lítið er eftir. Það eru dýr stig að tapa.

„Það var ekkert meiri þreyta í okkar liði en þeirra liði. Þetta tapaðist ekki á þreytu. Þetta var kæruleysi,“ sagði Ríkharður Daðason en bæði lið léku 120 mínútur á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×