Íslenski boltinn

Selfyssingar skelltu toppliði Grindavíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Tvö af efstu liðum 1. deildar karla, Grindavík og Fjölnir, töpuðu leikjum sínum í kvöld og um leið kom enn meiri spenna í gríðarlega jafna baráttu um laus sæti í Pepsi-deild karla næsta sumar. Grindavík steinlá á Selfossi en Fjölnir tapaði óvænt 1-3 á heimavelli á móti Þrótti.

Selfossliðið fór á kostum á móti Grindavík og lögðu toppliðið 3-0 á heimavelli sínum. Svavar Berg Jóhannsson, Þorsteinn Daníel Þorsteinsson og Luka Jagacic skoruðu mörkin í þessum þriðja sigri Selfossliðsins í röð.  

Grindvíkingar voru búnir að vinna fjóra leiki í röð og voru með tveggja stiga forskot á toppnum. Selfyssingar hafa greinilega tak á Grindvíkingum því þeir unnu fyrri leik liðanna í Grindavík 3-1.

Þróttarar náðu í dýrmæt stig í fallbaráttunni með því að sækja þrjú stig í Grafarvoginn. Þróttur komst í 2-0 í fyrri hálfleik og vann leikinn á endanum 3-1 sigur. Fjölnir missti Hilmar Þór Hilmarsson af velli með rautt spjald í lokin.

KA vann síðan 5-1 stórsigur á Tindastól á heimavelli en bæði KA og Selfoss nálgast toppbaráttuna þótt að góður endasprettur liðanna sé kannski að koma aðeins of seint.

Upplýsingar um markaskorar eru af hluta fengnar af vefsíðunni úrslit.net en einnig af heimasíðu KSÍ.

Úrslit og markaskorarar í 1. deild karla í kvöld:

KA - Tindastóll    5-1

1-0 Gunnar Valur Gunnarsson (18.), 2-0      Gunnar Örvar Stefánsson (25.), 3-0 Ævar Ingi Jóhannesson (48.), 4-0 Ævar Ingi Jóhannesson (52.), 5-0 Brian Gilmour (58.), 5-1 Jordan A Branco (87.)

Selfoss - Grindavík    3-0

1-0 Svavar Berg Jóhannsson (17.), 2-0 Þorsteinn Daníel Þorsteinsson (48.), 3-0 Luka Jagacic (66.)

        

Fjölnir - Þróttur R.    1-3

0-1 Sveinbjörn Jónasson (15.), 0-2 Aron Ýmir Pétursson (36.), 1-2 Aron Sigurðarson (39.), 1-3 Andri Björn Sigurðsson (90.+3).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×