Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - Keflavík | Fjórði sigur Fylkis í röð

Sigmar Sigfússon í Lautinni skrifar
Fylkir vann sannfærandi 3-0 sigur á Keflvíkingum í 15. umferð Pepsi-deildar karla á Árbæjarvelli í kvöld. Fylkismenn hafa unnið alla fjóra leiki sína í seinni umferð Íslandsmótsins.

Fylkismenn byrjuðu leikinn af krafti og virkuðu einbeittir og ákveðnir. Guy Roger Eschmann, leikmaður Fylkis, var mjög sprækur í fyrri hálfleik og lék Keflvíkinga oft á tíðum grátt.

Fylkisliðið varð fyrir áfalli á 16. mínútu þegar Ásgeir Börkur Ásgeirsson fór af velli vegna meiðsla. Ásgeir var tæpur í nára fyrir leikinn en meiðsli hans eru ekki talin alvarleg. Það virtist ekki hafa nein áhrif á spilamennsku heimamanna og þeir skoruðu fyrsta markið á 26. mínútu.

Guy Roger átti þá góðan sprett upp allan völlinn og við vítateigsbrúnina renndi hann knettinum til vinstri þar sem Andrés Jóhannesson kemur á ferðinni og skorar laglega framhjá Ómari í markinu.

Keflvíkingar voru oft á tíðum í miklum vandræðum með varnarleik sinn í fyrri hálfleik og Fylkismenn gengu á lagið. Það var síðan á 45. mínútu sem heimamenn fengi dæmda vítaspyrnu. Markarskorarinn Andrés var felldur inn í teig Keflvíkinga. Finnur Ólafsson fór á punktinn og skoraði örugglega.

Staðan í Hálfleik var 2-0 fyrir Árbæinga. Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri lauk og Fylkismenn voru mun sterkari aðilinn. Það var mikil harka í leiknum og eitthvað um pústra. Guy Roger sýndi lipra takta ásamt Viðari Erni Kjartansssyni.

Það var svo á 85. mínútu sem þriðja mark Fylkis kom. Þar var að verki Selfyssingurinn knái Viðar Örn sem skoraði gott mark eftir frábæra sendingu inn fyrir vörnina frá Emil Berger. Lokastaðan var 3-0 fyrir Fylki.

Keflvíkingar náðu ekki að fylgja eftir góðum sigri frá því í síðustu umferð en Fylkir var að vinna fjórða leikinn í röð.

Mynd/Daníel
Ásmundur: Tvö ný félagsmet

„Andinn er yndislegur núna. Mér skilst að við séum að setja tvö ný félagsmet þessa dagana. Það fyrra var versta byrjun í sögu félagssins og það seinna lengsta „run“ í sigureikjum,“ sagði Ásmundur Arnarsson þjálfari Fylkis léttur eftir leikinn.

„Menn voru auðvitað mjög hungraðir eftir slæma byrjun. En við vorum ef til vill dálítið hræddir fyrir þennan leik þar sem við vorum í fyrsta sinn að mæta liði sem var fyrir neðan okkur. En það hófst.“

Kristján: Dæmigert fyrir Coco Puffs kynslóðina

„Þessi leikur er dæmigerður fyrir þessa Coco Puffs kynslóð. Það að verða bara að einverju lofti inn á vellinum. Sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Kristján Guðmundsson mjög fúll eftir leikinn og bætti við:

„Við vorum líka lélegir í fyrri hálfleik og gerðum heilt yfir allt of mikið af mistökum í þessum leik. Það voru allt of margir sem voru hreinlega týndir inn á vellinum. Það kemur fyrir að menn eiga lélegan leik en núna voru það of margir,“ sagði Kristján að lokum.

Viðar Örn: Sjálfstraustið er meira í hópnum

„Ég var ekki alveg nógu sáttur með leikinn svona heild sinni en við vorum miklu betra liðið í leiknum í sjálfum sér,“ sagði Rakarasonurinn knái, Viðar Örn Kjartansson eftir leikinn.

„Sjálfstraustið er miklu meira í hópnum núna og við erum að vinna fyrir hvorn annan. Nýtum færin og fáum fá mörk á okkur og um það snýst leikurinn. Ég get ekki verið annað enn sáttur með 3-0 sigur annað væri einfaldlega vitleysa.“ Sagði Viðar kátur í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×