Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - FH 2-6

Stefán Hirst Friðriksson á Akranesvelli skrifar
Björn Daníel Sverrisson.
Björn Daníel Sverrisson. Mynd/Daníel
Björn Daníel Sverrisson átti ótrúlegan leik en hann skoraði fjögur mörk í góðum 6-2 sigri Íslandsmeistara FH á Skagamönnum upp á Skipaskaga í sextándu umferð Pepsi-deildarinnar nú í kvöld.

Staðan var 2-2 og leikurinn í járnum fram að 57. mínútu þegar Arnari Má Guðjónssyni var vikið af velli. FH-ingar gengu á lagið í kjölfarið og völtuðu yfir lánlausa heimamenn.

Leikurinn fór fjörlega af stað og það voru heimamenn í ÍA sem byrjuðu leikinn töluvert betur og var það Kári Ársælsson sem kom þeim yfir á 22. mínútu með marki úr hornspyrnu.

Skagamenn þurftu að gera tvær breytingar á sínu liði vegna meiðsla og virtist það riðla spili leiksins. FH-ingar tóku öll völd á vellinum og var það svo Björn Daníel Sverrison sem jafnaði leikinn á 35. mínútu með góðu marki.

FH-ingar héldu áfram að pressa stíft á heimamenn og tókst þeim að komast yfir með síðustu snertingu hálfleiksins. Þá fengu þeir sína áttundu hornspyrnu í hálfleiknum, Tillen sendi boltann fyrir þar sem Guðmann Þórisson var mættur til þess að skalla boltann í netið.

Heimamenn náðu að jafna metin strax í upphafi síðari hálfleiksins. Jón Vilhelm Ákason slapp í gegnum vörn FH-inga á furðulegan hátt og vippaði hann boltanum snilldarlega yfir Róbert í marki FH. Furðulegur varnarleikur Íslandsmeistaranna.

Það gerðist mjög umdeilanlegt atvik á 57. mínútu þegar Arnari Má Guðjónssyni vikið af velli fyrir tæklingu. Harður dómur að mati undirritaðs og hefði gula spjaldið mögulega nægt.

Íslandsmeistarar FH voru ekki lengi að nýta sér liðsmuninn en þeir skoruðu tvö mörk á næstu tíu mínútum. Fyrst var það Björn Daníel sem skoraði af harðfylgni eftir fyrirgjöf. Síðara markið var einkar glæsilegt en þar var að verki Brynjar Ásgeir Guðmundsson eftir frábæran einleik.

Það var svo maður leiksins Björn Daníel Sverrisson sem gerði út um leikinn með tveimur mörkum til viðbótar og skoraði hann heil fjögur í leiknum. Frábær frammistaða hjá frábærum leikmanni.

Útlitið er vægast sagt svart hjá Skagamönnum en þeir eru neðstir í deildinni og er lítið sem bendir til þess að þeim takist að bjarga sér úr þessari stöðu sem liðið er í.

Björn Daníel: Alltaf gaman að skora

„Þetta var fínt hjá okkur í dag. Við vorum ekkert sérstakir í fyrri hálfleiknum en stjórnuðum þessu gjörsamlega í þeim síðari og kláruðum þetta örugglega. Það er að sjálfsögðu alltaf gaman að skora og er ég sáttur með mín mörk í dag," sagði Björn Daníel.

„Okkur líst bara vel á framhaldið í deildinni. Þegar þú ert hjá félagi eins og FH þá er gerð krafa á að vinna titla og ég vona að mér takist að ná í einn í viðbót áður en að ég fer út. Menn eru orðnir spenntir fyrir Evrópuleiknum á móti Genk í vikunni og við erum bjartsýnir. Maður á ekki möguleika gegn svona liðum ef maður hefur ekki trú á sínu liði," sagði Björn Daníel Sverrisson, leikmaður FH í leikslok.

Þorvaldur: Útlitið er svart

„Við vorum að spila nokkuð vel í fyrri hálfleiknum og fannst mér vera jafnræði með liðunum. Við vorum samt sem áður að elta þá. Við þurfum að gera tvær breytingar á okkar liði snemma í hálfleiknum og hafði það mikil áhrif á okkar leikskipulag. Við fáum svo á okkur þetta rauða spjald og eftir það er þetta algjör einstefna FH-inga," sagði Þorvaldur.

Aðspurður um hvað honum fyndist um rauða spjaldið sagði Þorvaldur:

„Mér fannst þetta virkilega strangur dómur. Dómarinn útskýrði það fyrir okkur að þetta hefði verið vegna tveggja fóta tæklingar. Ég er ekki alveg sammála því og hefði talið að gula spjaldið myndi duga," bætti Þorvaldur við.

„Útlitið er vissulega svart hjá okkur. Það er vonandi að við náum að tjasla mönnum saman fyrir næsta leik. Ég mun aldrei missa trúnna á verkefninu og erum við alls ekki búnir að gefast upp," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari ÍA í leikslok.

Heimir: Bjartsýnir á framhaldið

„Þetta var fínn sigur hjá okkur. Alltaf erfitt að koma upp á Skaga og verða þetta yfirleitt baráttuleikir. Við áttum í erfiðleikum með þá í fyrri hálfleiknum en okkur tókst samt að vera yfir í hálfleik þrátt fyrir að hafa ekki spilað vel. Seinni hálfleikurinn var mun betri, það var betra flot á boltanum og okkar aðgerðir virkuðu markvissari. ," sagði Heimir.

„Við erum bara bjartsýnir á framhaldið og stefnum að sjálfsögðu á að halda áfram í þessari toppbaráttu. Við eigum erfiðan Evrópuleik á fimmtudaginn á móti Genk og þurfa menn að vera klárir í það verkefni. Við þurfum að eiga frábæran leik til þess að eiga möguleika gegn sterku belgísku liði," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH-inga í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×