Íslenski boltinn

Almarr: Það er ekki eins og þeir séu með einhverja sögu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Almarr Ormarsson.
Almarr Ormarsson. Mynd/Anton
„Við gáfumst ekki upp þrátt fyrir að lenda 2-0 undir. Að fara 2-0 inn í hálfleik er hrikalega erfitt en við börðumst eins og ljón,“ sagði Almarr Ormarsson sem skoraði tvö mörk fyrir Fram og lagði upp það þriðja þegar Fram varð bikarmeistari í dag. Fram og Stjarnan gerðu 3-3 jafntefli í leiknum sjálfum en Fram vann vítakeppnina 3-1.

„Ég veit ekki hvort þetta var víti í fyrsta markinu og mér fannst við skora mark í fyrri hálfleik sem var ekki dæmt. Við héldum áfram og sýndum hvað í okkur býr.

„Við höfum ekki verið duglegir við þetta í sumar en við höfum átt það til undanfarin ár að koma til baka og við gáfum allt í þetta í dag og uppskárum.

„Það var næstum því erfiðara að lenda 3-2 undir en 2-0 af því að við vorum búnir að jafna en ég er svo ánægður með strákana að halda áfram og hafa trú á þessu. Það er ekki auðvelt í svona leik. Hálft liðið var byrjað að haltra það sprakk pungurinn á Ömma (Ögmundi markverði).

„Hálft liðið var á öðrum fæti en við hoppuðum á öðrum fæti og kláruðum þetta þannig. Það voru kannski frekar þeir sem reyndu að skora í framlengingunni við vorum farnir að sjá að vítaspyrnukeppni væri betra fyrir okkur.

„Sem betur fer ákvað Ömmi að verja sína fyrstu vítaspyrnu á ævinni. Það var ágæt tímasetning á því.

„Ég heyrði einhvers staðar út undan mér að Stjarnan hafi fagnað að fá okkur í úrslit en ekki Breiðablik. Ég hlæ að svoleiðis sögum. Það var mikið talað um að þeir væru miklu betra lið og með miklu betri áhorfendur og eitthvað svona kjaftæði og að sagan væri ekki með okkur. Það er ekki eins og þeir séu með einhverja sögu.

„Þetta var hörkuleikur og tvö frábær lið. Þetta hefði getað dottið þeirra megin, við vorum ekki mikið betri, alls ekki en mér fannst við eiga þetta skilið.

„Loksins landar liðið titli aftur. Það var orðið allt of langt síðan síðast og vonandi getur klúbburinn notað það áfram og byggt á því. Evrópukeppni á næsta ári og fyrsti titillinn lengi, það hjálpar,“ sagði Almarr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×