Innlent

"Yngra fólkið er ekki mjög ánægt og maður skilur það"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Samkomulagið var kynnt fyrir geislafræðingum á fundi sem hófst í morgun og stóð fram eftir degi. Eftir það lögðust þeir undir feld. Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga segir samninginn fela í sér breytt vinnufyrirkomulag. Þá verði sérhæfing metin til tekna og komið upp aldursþrepum til að búa til hvata í kerfinu.

 Launahækkanir eru allt að 15%, ekki satt?

„Ja, þær geta jafnvel verið hærri en þetta dreifist mjög misjafnlega,“ segir Katrín.

Eldri geislafræðingar fá meiri hækkanir en þeir sem yngri eru. „Maður fann það alveg strax að yngra fólkið er ekki mjög ánægt og maður skilur það,“ segir hún.

Katrín hefur áhyggjur af þessu og óttast að einhverjir muni snúa sér að öðru og kynslóðabil skapist í stéttinni. „Það er leiðinlegt frá því að segja en það er mikil reiði og síðustu þrír mánuðir hafa farið sérstaklega illa í geislafræðinga. Þeir hafa unnið undir skikkunum yfirmanna um að taka á sig yfirvinnu sem þeir hafa ekki kært sig um,“ segir hún.

 Hafa einhverjir þegar ráðið sig annað?

„Já já, það er ljóst að það koma ekki allir til baka,“ segir Katrín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×