Innlent

"Geggjað að ná að sigrast á þessu“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Birkir Alfons Rúnarsson var aðeins fimmtán ára gamall þegar hann greindist með bráðahvítbæði árið 2011. Með jákvæðni og styrk að leiðarljósi hefur honum tekist að sigrast á meininu og ákváðu hann og eldri bróðir hans, Bergsveinn, að gera myndband þar sem þeir þakka fyrir þann mikla stuðning sem fjöldskyldunni hefur verið sýndur.

Fjölskyldan vill færa sérstakar þakkir til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, sem hefur hjálpað fjölskyldunni í gegnum súrt og sætt. Á þeim rúmum tveimur árum sem Birkir hefur tekist á við þetta verkefni hefur hann þurft að eyða 81 nótt á spítala, þar sem hann var meðal annars svæfður rúmlega tuttugu sinnum og teknar af honum um 200 blóðprufur. Í dag er hann krabbameinslaus.

Hvernig líður þér í dag? „Mér líður bara ógeðslega vel. Það er bara geggjað að ná að sigrast á þessu,“ segir Birkir.

Þótt Birkir sé laus við krabbameinið á hann samt stórt verkefni fyrir höndum

„Hann þarf að fara í mjaðmaskipti í október,“ segir Bergsveinn, bróðir Birkis, og segir bæði þurfa að skipta um hægri og vinstri mjöðm. „Þannig að hann er svona á meðan á hækjum og í hjólastól þess á milli. Það er bara næsta verkefni, stóra verkefnið er búið og litla verkefnið eftir.“

„Það er ekkert miðað við þetta krabbamein sko,“ segir Birkir.

En hvað ætlar sautján ára piltur sem á lífið fyrir sér að gera á næstunni?  „Allavega fara til Boston á morgun. Skemmta sér þar, kaupa föt og liggja í sólinni,“ segir Birkir. „Annars bara að fara í golf, vera með vinunum og fjölskyldunni og bara njóta lífsins. Það er ekkert annað. Þetta verður bara gaman og ég hlakka til.“

Lífið er stutt og vilja þeir bræður koma þeim skilaboðum áleiðis til áhorfenda að hindranir eru til þess að sigrast þær. „Ef það kemur veggur, ekki hætta og snúa við, heldur bara finna þér leið í gegnum hann. Yfir hann, undir hann, bara halda áfram,“ segir Bergsveinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×