Innlent

Forsetahjónin á heimsmeistaramóti íslenska hestsins

Kristján Hjálmarsson skrifar
Ólafur Ragnar og Dorrit verða meðal gesta á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín.
Ólafur Ragnar og Dorrit verða meðal gesta á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín.
Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú taka þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins hefst í Berlín á sunnudag.

Á sunnudag mun forsetafrú ásamt sveit þátttakenda ríða íslenskum gæðingum að Brandenborgarhliðinu í miðborg Berlínar þar sem forseti Íslands og borgarstjóri Berlínar, Klaus Wowereit, flytja ávörp.

Heimsmeistaramótið verður svo sett formlega síðdegis á sunnudag á leikvanginum í Karlshorst. Forsetafrú mun ríða með íslenska landsliðinu inn á leikvanginn og að lokinni hátíðarreið þátttakenda frá ýmsum löndum munu forseti Íslands og Jens Iversen, forseti Alþjóðasambands Íslandshestafélaga, flytja ávörp.

Stöð 2 Sport hefur tryggt sér útsendingarréttinn á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Berlín í Þýskalandi dagana 4. - 11. ágúst og verður með beinar útsendingar frá mótinu alla keppnisdagana og samantektarþætti á kvöldin. Þetta er í fyrsta skipti sem Heimsmeistaramóti íslenska hestsins verður sjónvarpað í heild sinni í beinni útsendingu með íslenskum lýsingum. 

Heimsmeistaramót íslenska hestsins er að þessu sinni haldið í höfuðborg Þýskalands og er þetta í fyrsta sinn sem mótið er haldið í miðri stórborg. Mikill áhugi er fyrir mótinu, bæði á Íslandi og meðal aðdáenda og eigenda íslenskra hesta um víða veröld. Um tvö þúsund Íslendingar hafa pantað sér miða á mótið en reiknað er með þrjátíu þúsund áhorfendum á mótinu.

Íslenskir hestar frá 15 löndum munu taka þátt í heimsmeistaramótinu en alls eru 163 þátttakendur skráðir til leiks, þar á meðal átta fyrrverandi heimsmeistarar. Á heimsmeistaramótinu eru sjö keppnisgreinar; tölt, slaktaumatölt, fjórgangur, fimmgangur, gæðingaskeið, 250 metra skeið og 100 metra flugskeið. Þá munu 44 kynbótahross hljóta dóm í kynbótasýningu.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×