Innlent

Aukin löggæsla um helgina

Hrund Þórsdóttir skrifar
Aukið eftirlit um helgina er viðbót við hefðbundinn viðbúnað. Við spurðum Jónínu Sigurðardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá Ríkislögreglustjóra.

Þið hafið sem sagt alveg mannskap í þetta aukna eftirlit?

„Já, það er kominn mannskapur í það, við erum búin að fylla í öll skörð,“ segir Jónína.

Sérstök áhersla verður lögð á umferðar- og fíkniefnaeftirlit og verða fíkniefnahundar á nokkrum hátíðum. Þegar hafa komið upp nokkur fíkniefnamál í Vestmannaeyjum.

Landhelgisgæslan og ríkislögreglustjóri eiga samstarf um umferðareftirlit og fór þyrla gæslunnar í loftið í dag. „Hún er útbúin lögreglumönnum með radar og tæki til hraðaeftirlits og mælinga. Hún flýgur yfir þjóðvegina, kannar hvert straumurinn liggur og mælir hraða og verður eitthvað fram eftir kvöldi í háloftunum,“ segir Jónína.

Mikil umferð var út úr bænum í dag og segir Jónína helgina fara ljómandi vel af stað. „Að vísu kom eitt umferðaróhapp hjá lögreglunni á Hvolsvelli, þar varð bílvelta og það er talið að beltin hafi bjargað þar. Það fór betur en á horfðist,“ segir Jónína að lokum og óskar þess að landsmenn taki lífinu með ró og komi heilir heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×