Innlent

Jafn mikilvægt að ræða mannréttindamál og að gera við holóttar götur

Heimir Már Pétursson skrifar
Jón Gnarr segir mikilvægt að fólk í hans stöðu vinni að mannréttindamálum allra.
Jón Gnarr segir mikilvægt að fólk í hans stöðu vinni að mannréttindamálum allra.
Jón Gnarr borgarstjóri sagði í ræðu á mannréttindaráðstefnu í tengslum við Hinsegin leikana, eða Out Games, í Andverpen í Belgíu í gær að það ætti að vera verkefni stjórnmálamanna almennt að vinna að virðingu fyrir mannréttindum allra, líka hinsegin fólks.

Borgarstjóri sagðist m.a hafa skrifað opið bréf til páfans vegna réttinda hinsegin fólks og hann vildi slíta vinasambandi Reykjavíkur við Moskvu vegna bágrar stöðu réttinda hinsegin fólks þar.

Það væri ekki síður mikilvægt verkefni borgarstjóra að ræða þessi mál en að sjá til þess að gert væri við holóttar götur.  - En hvað finnst honum um þá gagnrýni að hann tali of mikið um réttindi hinsegin fólks?

„Já, mér finnst það rangt. Mér finnst mannréttindi vera eitt mikilvægasta málefni í heiminum í dag. Ef við ætlum að þroska þennan heim til betri vegar þá er það eitthvað sem við þurfum virkilega að laga, þannig að við getum staðið sem heimur undir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um það að allar manneskjur skuli vera jafnar og hafa jöfn tækifæri til öryggis og hamingju,“ segir borgarstjóri.

Hann segir mikilvægt að fólk í hans stöðu vinni að mannréttindamálum allra. Honum finnist að stjórnmálamenn almennt séu að verða opnari fyrir að ræða þessi mál en áður. Borgarstjóri eigi að vera einhvers konar talsmaður íbúanna og vilja þeirra.

„Ég skynja það mjög sterkt að allt sem ég hef gert á þessu sviði hefur hlotið mjög góðan hljómgrunn hjá borgarbúum. Þetta er eitthvað sem ég held að flestir Íslendingar vilji standa fyrir; það er friður, mannréttindi og mannvirðing. Ég held að það sé mjög ríkt í okkur sem þjóð,“ segir Jón Gnarr.

Og borgarstjórinn er búinn að ákveða hvernig hann verður klæddur í gleðigöngu Hinsegin daga eftir rúma viku og segir að búningur hans muni koma á óvart.

„Já, það mun koma töluvert á óvart og ég hlakka mikið til eins og alltaf. Þetta er viðburður sem ég byrja að hlakka til á vorin,“  segir borgarstjóri sem nú er staddur í Antverpen.

Hlusta má á viðtal Heimis Más við Jón Gnarr í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Það var fiðringur í Jóni Gnarr fyrir Gleðigöngunni þegar Bylgjan sló á þráðinn til hans í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×