Innlent

Innipúki utandyra

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þó að landmenn séu margir staddir á útihátíðum er nóg um að vera í Reykjavík. Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í tólfta skipti um helgina. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt, en í dag var meðal annars haldin flóamarkaður í Faktorýportinu og lífi blásið í gamla tónlistarhátíð í Breiðholtinu.

Dagskráin fer ekki bara fram innandyra, heldur verður nóg að gerast í Faktorýportinu alla helgina. Flóamarkaðurinn Nískupúkinn fór fram í dag, þar sem ýmislegt var falt fyrir rétta upphæð.

„Okkur langaði að hafa stemninguna þannig að hún væri allan daginn, eins og oft tíðkast á hátíðum sem eru haldnar yfir verslunarmannahelgina. Til að halda portinu svolítið lifandi ákváðum við að halda fatamarkað, og gefa fólki tækifæri á að bæði selja föt og finna sér eitthvað fínt til að vera í fyrir kvöldið, segir Ragnheiður Maísól Sturludóttir, skemmtana- og skreytingarstjóri Innipúkans í ár.

Edda Kristín Hauksdóttir er ein þeirra sem ákvað að slá til og selja utan af sér spjarirnar í dag.

„Ég ákvað að taka aðeins til í fataskápunum og koma með allt góssið hingað. Ég meina hvað á maður að gera annað en að taka til í skápunum þegar það rignir svona rosalega eins og í júlí? Við vinkonurnar ákváðum bara að tæma úr skápunum og taka okkur svo til og baka kanilsnúða í ofanálag sem við seldum á hundraðkall stykkið,“ segir Edda kampakát með sölu dagsins.

Dagskrá Innipúkans er ekki bara í miðbæ Reykjavíkur heldur er Rykrokk tónlistarhátíðin í Fellagörðum hluti af dagskránni í þetta sinn. Rykkrokk var síðast haldið 1995 en ákveðið var að blása nýju lífi í hátíðina í ár. Langi Seli og Skuggarnir, Prins Póló, Tanya & Marlon og Samaris stigu á stokk, en allir þeir tónlistarmenn sem fram komu eiga það sameiginlegt að hafa sérstaka tengingu við Breiðholtið.                                                                                                     




Fleiri fréttir

Sjá meira


×