Innlent

"Hikum ekki við að gera athugasemdir þegar við á“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Fjármálaeftirlitið fylgist vel með framkvæmd fjármálafyrirtækja á endurútreikningum á gengislánum og mun ekki hika við að gera athugasemdir ef við á.

Til þess að útkljá hin svokölluðu gengislánamál var ákveðið á síðasta ári að rekin yrðu fyrir dómstólum ellefu prófmál, sem voru talin til þess fallin, að leysa úr ágreiningsefnum sem snéru að endurútreikningum á lánunum. Í fréttum Stöðvar tvö á miðvikudag sagði lögmaðurinn Einar Hugi Bjarnason það skjóta skökku við að fjármálafyrirtækin hafa nú fellt niður átta af þessum ellefu prófmálum, en beri jafnan fyrir sig að ekki sé hægt að ráðast í endurútreikninga á lánunum vegna réttaróvissu. Tvö málanna eru enn í gangi í réttarkerfinu.

Haldi fjármálafyrirtækin áfram að bera fyrir sig réttaróvissu eftir að niðurstaða fæst úr þessum tveimur málum, mun það þá verða til þess að Fjármálaeftirlitið grípi inn í? Rúnar Guðmundsson, aðstoðarframkvæmdastjóri eftirlits hjá Fjármálaeftirlitinu segir að eftirlitið hafi núna um langan tíma fylgst með framkvæmdinni.

„Hvað eftirlitsskyldir aðilar eru að gera varðandi endurútreikning lána og þess háttar. Ef að til þess kemur að okkur sýnist eftirlitsskyldur aðili að ósekju vera að draga lappirnar þá heyrir það undir okkur að gera athugasemdir og ég vil segja að við hikum ekki við að gera athugasemdir þegar við á“, segir Rúnar.

Komi upp sú staða að það liggi fyrir að fjármálafyrirtækin séu að draga lappirnar getur Fjármálaeftirlitið, á grundvelli ákvæða um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, gert athugasemdir og úrbótakröfu. „Og við getum fylgt þeirri úrbótakröfu eftir. Ég er ekki að segja að sú staða sé komin upp, en við fylgjumst með þessu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×