Innlent

Ekkert lát á eftirspurn ferðamanna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Samkvæmt tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar um eyðslu ferðamanna í júlí eyða ferðamenn mestu í gistingu, næstmestu í verslun og þar næst í ýmsa skipulagða ferðaþjónustu eins og skoðunarferðir og hvalaskoðun.

Ferðamenn greiddu 1,8 milljarð króna með kortum sínum í íslenskum verslunum í júní, sem er 13% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Kaupmenn í miðbænum njóta góðs af þessari auknu veltu og hafa nokkrir brugðið á það ráð að hafa opið langt fram á kvöld yfir sumarmánuðina.

Ferðalangar kaupa þó ekki bara minjagripi á Íslandi, heldur eru hönnunarvara, geisladiskar og fatnaður til dæmis vinsælir kostir. Fréttastofan kíkti í miðbæinn og komst að því að starfsfólk í hinum ýmsu verslunum er almennt sammála um að ferðamenn séu um 70% viðskiptavina yfir sumartímann. Þá minntust nokkrir á að sameiginlegur opnunartími á Laugaveginum væri eitthvað sem yrði öllum til hags.

Og þó það sé verslunarmannahelgi vantar ekki fólk á Laugaveginn. Klukkan hálf tíu í morgun var allt morandi í ferðamönnum sem ráfuðu um miðbæinn. Einhverjir ætluðu sér að kíkja í búðir, aðrir aðrir leituðu að góðum morgunverðarstað og enn aðrir voru einfaldlega að drepa tíma á milli skipulagðra ferða út á land. Það er því ljós að það er ekkert lát á eftirspurn ferðamanna, eftir öllu á milli himins og jarðar, í miðbæ Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×