Innlent

Himneskt í Eyjum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Gríðarlega góð stemning var í Eyjum í gær og skemmtu 13 þúsund manns á öllum aldri sér saman í Dalnum. Dagskráin var þéttskipuð stórum nöfnum og stigu á svið menn á borð við Ásgeir Trausta, Unnsteinn og félagar í Retro Stefson, Gus Gus, Sálin og Ingó og Veðurguðirnir. Flugeldasýningin þótti einstaklega vegleg í ár. Sjá má fjöldann allan af myndum í myndasafninu hér að ofan.

Unnsteinn Manuel Stefánsson, söngvari Retro Stefson, spilaði fyrir troðfullan dalinn í gær og sagði það hafa verið mjög gaman. „Við vorum að spila þarna í fyrsta sinn. Sjálfur var ég meira að segja bara að koma til Vestmannaeyja í annað sinn.“ Hann sagðist ekki hafa hitt marga Þjóðhátíðargesta sökum vinnuskipulags hljómsveitarinnar.

„Við komum, spiluðum og fórum,“ útskýrir hann en sagðist þó hafa náð að sjá hljómsveitina Gus Gus stíga á stokk. „Það sem var ólíkt við að spila á Þjóðhátíð og á festivölum úti í heimi er að úti þekkir fólk kannski eitt til tvö lög. Í Eyjum þekktu áhorfendur öll lögin og sungu með allan tímann.“ Haraldur Ari Stefánsson, sem er búsettur í London og stundar þar leiklistarnám, slóst í för með hljómsveitinni á nýjan leik eftir stutta pásu. „Það var mjög gaman að hafa Harald með aftur. Við verðum miklu meira rappgengi á stórum sviðum.“ Retro Stefson spila á balli á Mýrarboltanum sem haldinn er á Ísafirði í kvöld.

„Það var himneskt í Eyjum,“ segir rapparinn Ágúst Bent Sigbertsson en hann steig á svið á föstudagskvöldi með Rottweiler-hundum. „Það gekk vel að spila. Við dönsuðum og dilluðum okkur,“ segir hann. „Þetta gekk eins og í draugasögu.“ Bent segist vera mikill landshornaflakkari og var hann kominn á Ísafjörð þegar Vísir náði af honum tali. „Það er skemmtilegra fólk hér á Ísafirði en það var eiginlega betra í Eyjum. Þar var mun betra veður, það er frekar leiðinlegt veður hér.“ Hann segir ekki mikla ölvun hafa verið í Dalnum. „Það er ekki hægt að vera of fullur, rétt eins og það er ekki hægt að vera of massaður eða of tanaður.“

Skemmtunin heldur áfram í kvöld. Verður Vísir með beina útsendingu frá Brekkusöngnum undir forystu Ingólfs Þórarinssonar. Búist er við að 15 þúsund manns láti sjá sig í Dalnum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×