Innlent

47 fíkniefnamál í Eyjum

Kristján Hjálmarsson skrifar
Það var líf og fjör í Vestmannaeyjum um helgina. Þjóðhátíð fór ágætlega fram um helgina þó erill hafi verið hjá lögreglu.
Það var líf og fjör í Vestmannaeyjum um helgina. Þjóðhátíð fór ágætlega fram um helgina þó erill hafi verið hjá lögreglu. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt, sérstaklega undir morgun. Fangageymslur voru fullar en aðeins sex klefar eru í Eyjum. Fyrir vikið þurfti að skipta út fólki þegar líða fór á nóttina.

Skömmu eftir miðnætti var maður handtekinn í Herjólfsdal eftir að tvítug stúlka kærði hann fyrir að hafa neytt sig til munnmaka. Var maðurinn, sem er fertugur, vistaður í fangageymslu og verður fluttur á Selfoss eftir hádegi í dag til frekari skýrslutöku.  Vitni verða og yfirheyrð í málinu í dag.

Tólf fíkniefnamál komu til kasta lögreglu í nótt og urðu fíkniefnamálin því alls 47 á Þjóðhátíð í ár. Tvö af þessum málum voru stærri mál, þar sem lagt hald á um 30 grömm af amfetamíni í hvoru þessara mála. Á þessari hátíð var lagt hald flestar algengar tegundir fíkniefna, svo sem amfetamín, kókaín, maríhúana og LSD.

Engar alvarlegar líkamsárásir hafa komið upp á hátíðinni, en tvær minniháttar árásir hafa verið kærðar en þar var einungis um pústra að ræða.

„Mér sýnist þetta hafa gengið vel að mestu leyti. Það er ekki óeðlilegt að eitthvað komi upp þegar 15 þúsund manns koma saman til að skemmta sér, þó gæslan sé mikil,“ segir Jóhannes varðstjóri í Vestmannaeyjum. „Þetta var hvorki rólegasta né annasamasta hátíðin.“

Veður er með ágætum í Eyjum, sólin skín en norðanátt. Snemma í morgun var komin löng röð á bryggjuna þar sem Þjóðhátíðargestir biðu eftir Herjólfi en hann fer tíu ferðir í dag. Þá hófst flug frá Eyjum snemma í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×