Innlent

Tveir Íslendingar fengu tíu ára dóm í dópmáli í Danmörku

Þorgils Jónsson og Fríða Garðarsdóttir skrifar
Tveir Íslendingar voru, fyrir héraðsdómi í Kaupmannahöfn í morgun, dæmdir í tíu ára fangelsi fyrir aðild að stóru fíkniefnamáli.
Tveir Íslendingar voru, fyrir héraðsdómi í Kaupmannahöfn í morgun, dæmdir í tíu ára fangelsi fyrir aðild að stóru fíkniefnamáli. Mynd/domstol.dk
Tveir Íslendingar voru í morgun dæmdir í tíu ára fangelsi í Danmörku fyrir aðild að stóru fíkniefnamáli.

Mennirnir tveir, Heimir Sigurðsson og Sturla Þórhallsson, höfðu játað að hafa tekið þátt í smygli á 33 kílóum að amfetamíni frá Hollandi til Danmerkur.  Heimi var gefið að sök að hafa farið í tvær ferðir til Hollands til að grennslast fyrir um hvort tollgæsla væri við landamærin. Sturla flutti hins vegar 27 kíló af amfetamíni til Danmerkur árið 2011, en hann hlaut átta ára dóm fyrir innfluting á fimm kílóum af amfetamíni frá Bretlandi. Dómurinn nú er tveggja ára viðbót við þann dóm og segir í frétt Jótlandspóstsins að báðir hafi ákveðið að una dómnum.

Fjölmargir eru ákærðir í málinu, sem snýst um innflutning á um sjötíu kílóum af amfetamíni á árunum 2011 og 2012.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, sem talinn er standa á bak við smylglið, var dæmdur í tólf ára fangelsi í júní fyrir sinn þátt í málinu, en fyrir dómi í gær kom fram að dómurinn yfir honum hafi verið mildaður um tvö ár vegna þess hve hann var samvinnuþýður við rannsókn málsins. Hann sagði meðal annars til annarra í málinu.

Dómsmeðferð í málinu mun halda áfram þar sem sjö sakborningar halda enn fram sakleysi sínu í málinu. Áætlað er að dómar muni ekki falla í þeim málum fyrr en í lok september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×