Innlent

Íbúar í Norðurmýri gera upp leikvöll í hverfinu

Hrund Þórsdóttir skrifar
Góða veðrið var vel nýtt í endurbætur í dag og lögð verður áhersla á að nýja leiksvæðið verði skapandi og skemmtilegt. „Við sóttum um í hverfissjóð hjá Reykjavíkurborg og fengum góðan styrk til að halda hverfishátíð sem verður haldin um helgina næstu og stór partur af því er að búa til þetta leiksvæði fyrir krakkana,“ segir Margrét M. Norðdahl, íbúi í hverfinu.

Íbúarnir eru ánægðir með að borgin vilji styðja við frumkvæðið. Vinnan heldur áfram á morgun og öll hjálp er vel þegin. Börnin í hverfinu tóku þátt í hugmyndavinnunni og þegar framkvæmdirnar hófust hópuðust þau á staðinn. „Það er náttúrulega það sem við viljum. Að þau hafi einhver stað til að vera á og bardúsa. Og við hugsuðum um að þetta ætti að höfða til bæði eldri krakka og líka fyrir yngri börnin. Það verður að vera eitthvað fyrir alla, foreldrana líka,“ segir Helga Gerður Magnúsdóttir, íbúi í hverfinu.

Þau Linda Mjöll Stefánsdóttir og Daníel Sigmundsson, sem unnið hafa að skapandi verkefnum víða um land, voru fengin til að aðstoða við hönnun og framkvæmd. „Við einskorðum okkur ekki við róluvelli, við bara gerum það sem er skapandi og skemmtilegt, þar erum við. Leikur og gleði, það er númer eitt,“ segir Daníel.

Allur efniviður í leikvöllinn er endurunninn. Tinna Þórudóttir Þorvaldsdóttir var í óðaönn að ullargraffa þegar fréttamaður kom á staðinn í dag. „Ullargraff er þannig að maður saumar textíl utan um hvað sem er. Ég ætla bara að reyna að graffa sem mest hérna og setja svolítinn lit í þetta,“ segir Tinna.

Krakkarnir í hverfinu segja að leikvöllurinn hafi verið afar óspennandi en í meðfylgjandi myndbroti má sjá þau í sniðugum leik á róluvellinum sem nú er í smíðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×