Innlent

Besti flokkurinn býður fram í borginni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Borgarstjóra dreymir um fallega brú á Skothúsveg.
Borgarstjóra dreymir um fallega brú á Skothúsveg. samsett mynd
Besti flokkurinn mun bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Þetta kom fram í viðtali Morgunútvarps Rásar 2 við Jón Gnarr borgarstjóra í morgun.

„Ég kýs að svara því ekki að svo stöddu,“ sagði Jón þegar þáttastjórnandi spurði hann hvort hann ætlaði að halda áfram í pólitík.

„Bæði er ég ekki búinn að gera það upp við mig og þar að auki höfum við hópurinn heldur ekki gefið okkur tíma til þess að setjast öll saman niður og ræða það. Ég er auðvitað ekki einn í þessu, ég dró töluvert mikið af fólki með mér í þetta þannig að ég er hluti af heild.“

Aspurður hvort honum finnist hann hafa breytt einhverju svarar Jón að svo sé.

„Ég hef náð að setja mitt mark á þetta embætti á margan hátt og með það er ég mjög ánægður. Auðvitað var mjög mikið af hlutum sem ég hefði viljað geta gert en síðan hefur ástandið verið þannig að við höfum ekki haft úr neitt mjög miklu að spila peningalega.“

Jón segir að ýmsum góðum hugmyndum hafi verið sleppt vegna þess að þær hafi þótt of dýrar.

„Það var til dæmis draumur minn þegar ég byrjaði að fá nýja brú á Skothúsveg. Þarna hefur mig alla tíð langað til að sjá fallega brú. Ég sé þetta fyrir mér sem stað þar sem fólk ætti að geta gift sig á, eins konar táknmynd Reykjavíkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×