Innlent

Geislafræðingar ítreka afstöðu sína í bréfi til forstjóra LSH

Hrund Þórsdóttir skrifar
Tveir geislafræðingar funduðu með forstjóra Landspítalans á fimmtudaginn til að greina frá afstöðu þeirra varðandi endurráðningu formannsins, Katrínar Sigurðardóttur. „Viðbrögðin voru í raun þau að hún gæti bara sent inn umsókn eins og hver annar geislafræðingur sem hún er núna búin að gera,“ segir Harpa Dís Birgisdóttir, varaformaður Félags geislafræðinga.

Harpa segir að um svipað leyti og Katrínu var sagt upp hafi verið auglýst eftir geislafræðingi og undrast að Katrín hafi ekki fengið þá stöðu. Hún segir hópnum misboðið.

Í Morgunblaðinu í dag segir Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, að aðeins tveir geislafræðingar hafi sagt endurráðningu Katrínar forsendu þess að þeir sneru aftur til starfa. Harpa segir svör hans skrýtin og var afstaða geislafræðinga ítrekuð í bréfi til forstjórans í morgun. „Þar sem kemur fram að  þeir geislafræðingar sem hafi hitt hann á fimmtudaginn síðasta, hafi verið að tala fyrir hönd geislafræðinga, ekki bara fyrir sína hönd,“ segir Harpa.

Páll Matthíasson, staðgengill forstjóra Landspítalans,segir spítalann ekki tilbúinn að blanda málefnum einstaklinga inn í kjaraviðræður. „Hins vegar verður umsóknum frá geislafræðingum tekið fegins hendi og þær fá flýtimeðferð. Að sjálfsögðu mun umsókn frá Katrínu, sem er reyndur og öflugur geislafræðingur, fá sömu afgreiðslu,“ segir Páll.

Hann segir að staðið hafi verið að uppsögn Katrínar í vor í samráði við lögfræðideild spítalans og ekki standi til að svara bréfi geislafræðinga frá því í morgun. Forsvarsmenn spítalans hafi talið að málið snerist um starfsaðstæður og kjör þeirra.

Er ekkert óeðlilegt að formanni félags sem stendur í samningaviðræðum við spítalann sé sagt upp störfum?

„Það fer algjörlega eftir því hvernig er að uppsögninni staðið og í þessu tilfelli var um skipulagsbreytingar að ræða sem áttu sér mun lengri aðdraganda en óskir geislafræðinga um nýjan stofnanasamning, þannig að svarið er nei,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×