Íslenski boltinn

Neitar að hafa sóst eftir rauðu spjaldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jordan Halsman í bikarleik gegn Gróttu fyrr í sumar.
Jordan Halsman í bikarleik gegn Gróttu fyrr í sumar. Mynd/Daníel
Jordan Halsman, vinstri bakvörður Framara, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt undir lok leiks Fram og Vals í 14. umferð Pepsi-deild karla í gærkvöldi.

Halsman fékk áminningu á tólftu mínútu leiksins en hún var hans fjórða á tímabilinu. Hann hefði því verið á leið í leikbann sem tekið hefði gildi á þriðjudaginn þegar aganefnd KSÍ kemur saman.

Fram mætir Stjörnunni í bikarúrslitum annan laugardag og hefði Skotinn því verið í banni í úrslitaleiknum. Fram mætir ÍA í deildinni nú á sunnudag og undir lokin leit hreinilega út fyrir að Halsman vildi láta reka sig af velli. Fái leikmenn rautt spjald tekur leikbannið nefnilega strax gildi. Ekki þarf að bíða eftir úrskurði aganefndar næsta þriðjudag.

„Ég var mjög pirraður í leiknum. Ég fékk áminningu snemma og það hefði verið hægt að reka mig útaf eftir hálftíma," segir Skotinn í samtali við Vísi.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, rak Halsman af velli með sitt annað gula spjald í viðbótartíma. Skotinn þvertekur fyrir að hafa reynt að ná sér í gult spjald. Pirringurinn hafi einfaldlega verið mikill.

„Ég hefði misst af einum leik með Fram hvort sem það var gegn ÍA eða bikarúrslitunum," segir Halsman þegar blaðamaður ber aftur undir hann hvort ekki hafi verið freistandi að ná frekar bikarúrslitaleiknum.

Halsman segist ekki hafa verið rekinn af velli í langan tíma þangað til rauða spjaldið fór á loft í gær. Hann hafi verið pirraður og Arnar Sveinn Geirsson fengið að kenna á því undir lokin.

„Ég bað hann afsökunar," segir Halsman sem er ósáttur við gengi Framara í deildinni. Hann vill ekki meina að gott gengi í bikarnum hafi haft neikvæð áhrif á formið í deildinni. Framarar verði að passa sig ætli þeir ekki að sogast niður í botnbaráttuna.

Halsman verður því í leikbanni gegn ÍA í deildinni á sunnudaginn. Hann verður hins vegar klár í slaginn annan laugardag þegar Fram getur bundið enda á 23 ára bikarþurrð í Safamýri þegar liðið mætir Stjörnunni í bikarúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×