Innlent

"Þetta er áskorun sem við ætlum að taka og sigra heiminn“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra fóru þau Bjarni Sigurðsson og Kristjana Margrét Harðardóttir tíu kílómetra saman en nú er stefnan sett á hálfmaraþon. Bjarni hefur aldrei hlaupið svo langt áður. „Þetta er áskorun sem við ætlum að taka og sigra heiminn,“ segir Bjarni.

Til að gera afrekin möguleg fengu þau lánaðan hjólastól hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. „Þetta er sérhannaður léttari stóll en þessir týpísku hjólastólar svo þetta verður skemmtilegt,“ segir Kristjana.

Þau hjón hlaupa til styrktar FSMA, sem er stuðningsfélag SMA sjúklinga og fjölskyldna þeirra hér á landi. SMA er meðfæddur taugasjúkdómur sem veldur vöðvarýrnun. Hann er til á fjórum stigum og er stig eitt alvarlegast. Kristjana er með SMA III. „Ég er ekkert rosalega sterk, ég get ekki lyft þungu og ég labba ekki en ég get staðið. Ég labbaði sem krakki og unglingur, þetta gerist allt mjög hægt,“ segir hún.

Kristjana bindur vonir við lyf sem er væntanlegt. „Þeir eru byrjaðir í klínískum rannsóknum með lyf og byrjaðir að sprauta í SMA krakka. Þetta lofar góðu og maður er svolítið spenntur,“ segir hún.

Bjarni og Kristjana giftu sig árið 2005 en þau kynntust í gegnum sameiginlega vinkonu. „Svo tók það mig alveg ár að fá að hitta hana, vinkonur hennar pössuðu svo vel upp á hana. Þær hleypa ekkert hvaða vitleysingum sem er að henni,“ segir Bjarni og hlær.

Hann stundaði áður enga hreyfingu en nú hlakkar hann til að takast á við hlaupið. Hann undirbýr sig með því að æfa crossfit og hlaupa. „Ég byrjaði að hlaupa milli ljósastaura fyrir fimm árum. Reis upp úr sófanum með ístruna eftir að ég hafði horft á myndband á youtube. Ég sagði að ég gæti ekki verið minni maður, þegar ég sá fimmtugan mann hlaupa með son sinn í hjólastól og taka járnkarlinn,“ segir Bjarni.

En skyldi ekki vera erfitt að hlaupa með stólinn?

„Þetta er lúmskt, hann bæði letur mig og hvetur mig. En jú, sérstaklega eftir svona sjö kílómetra, þá fer þetta að verða virkilega erfitt,“ viðurkennir Bjarni.

Hægt er að heita á þessi mögnuðu hjón á hlaupastyrkur.is undir síðu fsma.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×