Innlent

Stórslasaði keppnishesta og ók á braut

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hestarnir fældust þegar kyrrstæður bíll ók skyndilega af stað inn í mitt stóðið. Athugið að myndin tengist frétt ekki beint.
Hestarnir fældust þegar kyrrstæður bíll ók skyndilega af stað inn í mitt stóðið. Athugið að myndin tengist frétt ekki beint. MYND/GETTY
Um tuttugu hestar fældust og fimm slösuðust alvarlega þegar ökumaður keyrði inn í mitt hestastóð sem verið var að rekja yfir tvíbreiða brú við Hrúteyjarkvísl í Þingeyjarsveit í kvöld.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík var verið að reka hestana til móts þar sem þeir áttu að keppa um helgina. Ökumaðurinn, sem er að sögn lögreglunnar erlendur ferðamaður, var á bíl með hjólhýsi í eftirdragi. Hann ók á braut eftir atvikið og leitar lögregla hans.

Slysið atvikaðist þannig að undanfarar hópsins höfðu lokað brúnni öðru megin og hinum megin var ofangreind bifreið kyrrstæð. Menn töldu því að það væri óhætt að fara með stóðið yfir brúna eins og staðan var. Bíllinn fór þá óvænt af stað og stóðið fælist með þeim afleyðingum að hestarnir stukku yfir handrið brúarinnar.

Koma þurfti fimm hrossum til dýralæknis hið snarasta og eru þau mikið slösuð. Þar sem um keppnishesta er að ræða gæti fjárhagslegt tjón verið mjög mikið.

Lögreglan er bjartsýn á að finna ökumanninn, en hún hefur í fórum sínum mynd af bílnum sem hann keyrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×