Innlent

"Staðan er mjög alvarleg"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að hann treysti því að geislafræðingar og yfirstjórn Landspítalans myndu ná saman um niðurstöðu í deilu sinni á grundvelli gildandi stofnanasamnings og því er ljóst að viðbótarfjármagn kemur ekki til spítalans frá stjórnvöldum til að leysa deiluna. Tveir af hverjum þremur geislafræðingum, alls 40 talsins, hafa sagt upp störfum og ganga út á fimmtudaginn nema samið verði um bætt kjör þeirra.

Fundað var í málinu í dag og fyrirhugað var að halda fundarhöldum áfram nú klukkan hálfsex. Við hittum Katrínu Sigurðardóttur, formann Félags geislafræðinga, í fundarhléi og spurðum hana hvort geislafræðingar hefðu gert ráð fyrir viðbótarfjármagni frá ríkinu til að stuðla að lausn deilunnar. „Ég veit ekki hvað maður á að segja með það, hvorki né verð ég bara að segja. Við vitum bara að staðan er mjög alvarleg og hvernig það verður leyst, það vitum við ekki,“ sagði Katrín.

Hún sagði að Landspítalinn teldi sig ekki hafa fjármagn til að koma til móts við kröfur geislafræðinga. „ Ég vona bara að menn haldi áfram og það finnist lausn á málinu,“ sagði hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×