Innlent

Segir hrefnuveiðimenn og hvalaskoðun geta lifað í sátt

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hvalaskoðunarfyrirtæki og hrefnuveiðimenn geta auðveldlega lifað í sátt og samlyndi á Faxaflóa. Þetta segir talsmaður hrefnuveiðimanna sem þvertekur fyrir að veiðar á flóanum séu ástæðan fyrir fækkun hvaldýra í skoðunarferðum.

Skiptar skoðanir eru um ágæti hrefnuveiða á Faxaflóa. Í kvöldfréttum okkar í gær sagði rekstrarstjóri hjá Sérferðum, sem gerir út hvalaskoðunarbáta í Reykjavíkurhöfn, að veiðar á flóanum hafi leitt til verulegrar fækkunar á fjölda dýra sem sjást í hverri ferð.

Þessu er Gunnar Bergmann Jónsson, talsmaður hrefnuveiðimanna, ósammála. Hann segir fækkunina stafa af fæðuskorti.

„Við verðum að átta okkur á því að hér er leyfilegt að veiða 229 hrefnur á ári. Það er aðeins hluti af því sem má veiða á Faxaflóa,“ segir Gunnar.

„Núna erum við búnir að veiða 23 hrefnur og það eru ekki nema fimm dýr sem við höfum tekið úr Faxaflóa frá því í ágúst í fyrra.“

Uppgangurinn í Reykjavíkurhöfn hefur sannarlega verið mikill. Hundruðir ferðamanna freista þess nú á degi hverjum að sjá hval á svamli.

Hvalaskoðunarfyrirtækin fullyrða þó að veiðimenn á Faxaflóa séu einmitt að drepa þau dýr sem líklegust eru til að kæta ferðamenninga.

Gunnar Bergmann segir þetta vera af og frá.

„Menn verða að horfa í það hvort að það sé verið að drepa síðasta dýrið, það er ekki þannig. Það er enginn að ræða um útrýmingarhættu. Sérstaklega það sem varðar Faxaflóa sem er í raun stærsta hrefnusvæði í heimi út frá þéttleika.“

„Hvalaskoðunar og hrefnuveiðimenn geta vel lifað í sátt og samlyndi. Hvalaskoðunin verður aftur á móti að líta til þess að hér eru farnar tugir ferða á dag og á sama stað. Menn verða því að líta á það hvort að ágangur hvalaskoðunarferðanna hafi einhver áhrif. En heilt yfir þá hefur hrefnunni fækkað og það er bara atriði sem menn verða rannsaka enn frekar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×