Innlent

Segir aðgerðir gegn Færeyingum harkalegar

Heimir Már Pétursson skrifar
Mette Gjerskov er matvælaráðherra Danmerkur.
Mette Gjerskov er matvælaráðherra Danmerkur.
Mette Gjerskov matvælaráðherra Danmerkur lýsir yfir vonbrigðum með þá ákvörðun Evrópusambandsins í dag að hefja refsiaðgerðir gegn Færeyingum vegna deilna þeirra við sambandið um veiðar úr síldarstofninum.

Með aðgerðunum verður Færeyingum bannað að landa síld og makríl í aðildarríkjum sambandsins og flytja þangað afurðir sem unnar eru úr þessum fiskistofnum. Gjerskov segir Dani hafa lagst gegn aðgerðunum innan sambandsins enda telji þeir að samningaleiðin sé ekki fullreynd.

Þetta séu harkalegar aðgerðir gagnvart litlu samfélagi sem sé mjög háð fiskveiðum. Þá liggur í loftinu hótun um að bannað verði að selja Færeyingum skip, veiðarfæri og fleira tengt sjávarútvegi frá Evrópusambandinu.

Gjereskov segir Dani hafa mótmælt þessum aðgerðum vegna þess að þeir meti ríkjasamband sitt við Færeyinga mjög mikils, styðji sjálfbærar veiðar og telji að reyna hefði átt á samninga á fyrirhuguðum fundi strandríkja í september.

Þetta kemur fram á vef dönsku matvælastofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×