Innlent

Vilja hefja hnúfubaksveiðar

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Þessi skepna hefur ekki verið veidd hér við land í tæp sextíu ár. Hnúfubakurinn getur orðið sautján metra langur og fjörutíu tonn að þyngd.
Þessi skepna hefur ekki verið veidd hér við land í tæp sextíu ár. Hnúfubakurinn getur orðið sautján metra langur og fjörutíu tonn að þyngd.
Gunnar Bergmann, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna, hvetur til þess að veiðar verði hafnar á hnúfubaki og segir að félagið hefði áhuga á að stunda slíkar veiðar. Sverrir Daníel Halldórsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir það skynsamlegt að leyfa veiðar á hnúfubak í vísindaskyni sem gætu farið fram samfara talningu og rannsóknum á stofninum. „En það er bara pólitísk ákvörðun hvort menn vilja fara út í það,“ segir Sverrir Daníel en hann segir að rannsókn sem þessi sé dýr og taki nokkur ár.Þetta kemur heim og saman við tillögur Gunnars, sem segir bráðnauðsynlegt að rannsaka stofninn. Veiðar yrðu stundaðar í vísindaskyni í fimm ár eða svo en þá væru menn með gögn til að nota til veiðiráðgjafar. „Það þyrftu ekki að vera nema tíu dýr á ári og ég held að allir viti að það hefði nánast engin áhrif á stofninn,“ segir hann.Sverrir Daníel segir að hnúfubökum hafi fjölgað hér við land undanfarin ár og vísbendingar séu um að hrefnan leiti í auknum mæli á aðrar slóðir. Gunnar segir hrefnuveiðimenn hafa sannreynt þetta þegar þeir fóru hringinn í kringum landið og var víðast dræmt til hrefnuveiða en afar mikið um hnúfubak, sérstaklega fyrir norðan land. „Ég held við verðum að fara að rannsaka það hvaða áhrif það hefur á þessa auðlind okkar og það er einmitt kominn tími á að sérfræðingum sé gefið sviðið til að rannsaka þessi mál,“ segir Gunnar.Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu bárust þau svör að þar sem engin beiðni um slíkar veiðar hefðu borist væri ráðherra ekki í aðstöðu til að velta því upp.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.