Innlent

Barnaverndarnefnd braut trúnað á föður

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Persónuvernd úrskurðaði að Barnaverndarnefnd hefði 
verið óheimilt að miðla persónuupplýsingum til tveggja fræðimanna vegna rannsóknar og skólaverkefnis án leyfis föðurs.
Persónuvernd úrskurðaði að Barnaverndarnefnd hefði verið óheimilt að miðla persónuupplýsingum til tveggja fræðimanna vegna rannsóknar og skólaverkefnis án leyfis föðurs. MYND/DANÍEL
Barnaverndarnefnd var óheimilt að veita aðgang að persónuupplýsingum í þágu verkefnis sem unnið var af starfsmanni stofnunarinnar fyrir nemaverkefni, segir Persónuvernd.

Í maí 2012 barst Persónuvernd kvörtun varðandi miðlun persónuupplýsinga um föður og börn hans frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur til tveggja fræðimanna. Faðirinn sagði að ekki hefði verið leitað eftir samþykki hans þrátt fyrir að hann hefði sameiginlegt forræði með móður barnanna og að lögheimili þeirra hefði verið hjá honum.

Barnaverndarnefnd segir starfsmanninn, sem jafnframt vann að rannsókninni, hafa tilkynnt hana til Persónuverndar samkvæmt leiðbeiningum leiðbeinanda síns. Barnaverndarnefnd hafi verið kynnt að rannsóknin yrði í samræmi við lög og að veittur hefði verið aðgangur að gögnum í trausti þess.

Móðir barnanna kannaðist ekki við að hafa heimilað neina miðlun persónuupplýsinga er varðaði börn hennar og að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefði aldrei leitað eftir samþykki hennar. Á meðal þeirra upplýsinga sem notast var við í rannsókninni voru upplýsingar um hvaða úrræða var gripið til varðandi börnin og foreldrana og umfjöllun um frammistöðu beggja foreldra.

Rannsakandinn fullyrti hins vegar að móðirin hefði gefið leyfi með undirskrift og að hún hefði mætt í viðtal þar sem hún svaraði spurningum.

Þegar Persónuvernd bað um afrit af samþykkinu var sagt að það hefði glatast ásamt öðrum gögnum rannsóknarinnar. „Eftir því sem best er vitað tók [starfsmaðurinn] ekki gögn úr málaskrá af starfsstöð en það láðist því miður að kalla eftir samþykkisyfirlýsingum til varðveislu í skjalasafni Barnaverndar Reykjavíkur og er það mjög miður,“ segir í svari framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar til Persónuverndar.

„Ljóst er að barnaverndarnefnd Reykjavíkur miðlaði upplýsingum um kvartanda til rannsakanda án þess að samþykkis hans hafi verið aflað, en ekki verður talið að barnsmóðir hans hafi getað veitt samþykki fyrir hans hönd. Þá hefur ábyrgðaraðili ekki lagt fram fullnægjandi gögn því til stuðnings að samþykkis foreldra hafi verið aflað fyrir miðlun upplýsinga um börn þeirra,“ segir Persónuvernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×