Erlent

Þjóðir heims "kikna" undan flæði fíkniefnaeftirlíkinga

Jóhannes Stefánsson skrifar
Erfitt hefur reynst að draga úr fíkniefnaneyslu þrátt fyrir mjög eindregna viðleitni til þess.
Erfitt hefur reynst að draga úr fíkniefnaneyslu þrátt fyrir mjög eindregna viðleitni til þess. AFP
Fíkniefnanefnd Sameinuðu þjóðanna segir þjóðir heims enga stjórn hafa á eftirlíkingum af ólöglegum fíkniefnum sem eru framleidd til að annast eftirspurn eftir vímu á lögmætan hátt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu nefndarinnar.

Í skýrslunni segir að nú séu í fyrsta sinn til fleiri eftirlíkingar af ólöglegum fíkniefnum en fíkniefnin sjálf. Eftirlíkingarnar eru nú fleiri en 300 talsins.

Eftirlíkingarnar, sem á ensku kallast legal high, hafa skotið upp kollinum í 70 af 80 löndum sem könnun fíkniefnanefndarinnar nær til. Sumstaðar eru eftirlíkingarnar komnar með mikla markaðshlutdeild.

Nýjar tegundir eftirlíkinga séu nú farnar að skjóta upp kollinum svo hratt að hið alþjóðlega bann á fíkniefnum sé nú að kikna undan álaginu í fyrsta sinn síðan því var komið á fótinn árið 1961.

Þá er varað við því í skýrslunni að eftirlíkingarnar sem eru víða löglegar séu gjarnan mun hættulegri en upprunalegu fíkniefnin á borð við kókaín og kannabis, en neysla þeirra hefur ekki dregist saman þó að eftirlíkingarnar séu nú komnar á markað.

Eftirlíkingar eru nú vinsælastar á eftir kannabisefnum á meðal 17 og 18 ára unglinga í Bandaríkjunum, en þar í landi segjast 11% aðspurðra hafa prófað einhverskonar eftirlíkingu.

„Þessi lyf eru markaðssett sem „lögleg víma" og löglegar eftirlíkingar. Þessi hughvarfalyf eru að ryðja sér til rúms með sláandi hraða og hafa í för með sér ófyrséð heilsufarsvandamál," segir Yury Fedotov í samtali við The Guardian. Hann hvetur til samþættra aðgerða til að koma í veg fyrir framleiðslu, dreifingu og misnotkun lyfjanna.

„Þetta er erfitt vandamál, en lyfin eru lögleg. Þau eru seld fyrir opnum tjöldum, til dæmis á netinu. Þetta eru hughvarfalyf þar sem hætturnar eru ekki þekktar, en þær geta verið mun alvarlegri en með hefðbundnu fíkniefnin."

G8 ríkin komust að samkomulagi á fimmtudaginn til að takast á við vandann. Samkomulaginu er ætlað að auðvelda upplýsingaskipti um hin nýju efni, til dæmis hvað varðar áhrif á heilsu og upplýsingar um dreifingarleiðir.

Þetta kemur fram á vef The Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×