Íslenski boltinn

Dýfukóngurinn réttlætti rauða spjaldið á Halsman

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Anton

Magnús Þórir Matthíasson, leikmaður Keflavíkur, fékk reisupassann í 2-1 tapi gegn Fram í Pepsi-deildinni á dögunum.

Magnús Þórir ýtti þá Jordan Halsman, vinstri bakverði Framara, sem féll með tilþrifum í jörðina. Gunnar Jarl Jónsson, dómari leiksins vísaði Magnúsi af velli og verður leikmaðurinn því í leikbanni gegn Stjörnunni á sunnudaginn.

„Ég var létt pirraður og er eitthvað að reyna að ná til boltans og þá setur hann olnbogann út. Ég ýtti nú ekkert svakalega hressilega við honum en hann dettur allavega. Ég býð allavega hættunni heim, ég get tekið það á mig," sagði Magnús í viðtali við útvarpsþáttinn Reitarboltann á 433.is.

Magnús Þórir sagði Guðjón Árna Antoníusson, fyrirliði FH-inga, hafa bent sér á að um rautt spjald væri að ræða samkvæmt reglunum. Magnús hefði rekist á Guðjón Árna þar sem hann fékk sér kaffisopa með Haraldi Frey Guðmundssyni og Magnúsi Sverri Þorsteinssyni fyrr í vikunni.

„Þá datt inn dýfukóngurinn sjálfur, fyrirliði FH-inga. Hann reif upp minnisbókina og reglubókina í símanum og las einhvern pistil. Samkvæmt honum er þetta bara rautt. Hann er auðvitað búinn að fiska þá marga út af," sagði Magnús Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×