Innlent

Hestur sagði upp áskrift að RÚV

„Hann var bara ánægður með þetta og sagði meðal annars að hesturinn væri fallegur," segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar, sem kom ríðandi í höfuðstöðvar Ríkisútvarpsins í dag og afhenti Páli Magnússyni útvarpsstjóra uppsagnarbréf fyrir hönd stóðhestsins Tóns frá Austurkoti.

„Þetta var sem sagt uppsagnarbréf af útvarpi og sjónvarpi ríkisins. Stóðhesturinn er skilgreindur sem eignarhlutafélag og greiðir nefskatt, en hann getur eðli málsins samkvæmt ekki nýtt sér áskriftina," segir Áslaug Arna. Þá sendi félagið einnig bréf á Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra þar sem skorað er á hann að afnema nefskattinn.

Bréfið sem Páli var afhent
Í tilkynningu frá Heimdalli segir að félagið telji að íslenska ríkið eigi ekki að standa fyrir rekstri fjölmiðils, hvort sem um er að ræða ljósvakamiðil eða prentmiðil.

„Ætli ríkið sér á annað borð þó að reka fjölmiðil væri nær að slík stofnun verði sett á fjárlög. Þannig væri stofnunin í samkeppni við aðrar ríkisstofnanir og hægt að huga að auknu aðhaldi hjá Ríkisútvarpinu. Það er fráleitt að skattgreiðendur og fyrirtæki séu þvinguð til að halda uppi Ríkisútvarpinu með sérstökum skatti og njóti þannig sérstöðu í tekjuöflun umfram aðrar ríkisstofnanir eins og t.d. Landspítalann,“ segir í tilkynningunni.

Páll Magnússon les uppsagnarbréfið í Ofanleitinu í dag.Mynd/Anton Brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×