Innlent

Engar reglur til um hversu margar undirskriftir þarf

Jakob Bjarnar skrifar
Guðni Th. Jóhannesson rifjar upp að rúmlega 30 þúsund manns hafi skorað á forsetann í fjölmiðlamálinu og Ólafur Ragnar Grímsson svaraði því kalli.
Guðni Th. Jóhannesson rifjar upp að rúmlega 30 þúsund manns hafi skorað á forsetann í fjölmiðlamálinu og Ólafur Ragnar Grímsson svaraði því kalli.
Undirskriftasöfnun gegn frumvarpi um lækkun veiðigjalda hefur farið hratt af stað, svo hratt að vart finnast þess dæmi. Þó er erfitt að meta það í samanburði við aðrar undirskriftasafnanir vegna ólíkra aðstæðna, meðal annars fyrir og eftir internet. Ísak Jónsson kvikmyndagerðarmaður sagði í samtali við fréttastofu í gær að hann, ásamt félögum sínum, hafi hrundið henni af stað 17. júní klukkan fimm. Ekki er til nein viðmiðunartala, hvenær forseta ber að bregðast við ákalli. Sjálfur hefur hann sagt að fá mál henti betur í þjóðaratkvæðagreiðslu en einmitt kvótamálin.

"Hún er ekkert fastnegld," segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur. "Rúmlega 30 þúsund manns skrifuðu undir áskorun til Vigdísar Finnbogadóttur á sínum tíma, að staðfesta ekki lög um Evrópska efnahagssvæðið. Sami fjöldi skoraði á forseta, Ólaf Ragnar Grímsson, að synja lögum um fjölmiðla staðfestingar. Og þá varð hann við þeirri ósk. Haustið 2009 vildu um það bil 10 þúsund manns að forsetinn staðfesti ekki lög um fyrsta Icesavesaminginn. En, það dugði ekki til. Forsetinn undirritaði þau lög. Svo voru það 56 þúsund sem skoruðu á forseta að synja nýjum Icesavesamningi staðfestingar. Þetta var í árslok 2009. Hann varð við því," rifjar Guðni upp.

Um þetta eru sem sagt engar reglur samkvæmt gildandi stjórnarskrá, allt er þetta háð mati hverju sinni og í raun geðþótta forsetans. En fordæmi eru fyrir því að 30 þúsund undirskriftir hafi orðið til að Ólafur Ragnar hafi gengið gegn þingi, talið það til staðfestingar því að gjá sé þings og þjóðar og synjað lögum staðfestingar.

Umrædda undirskriftasöfnun er að finna hér en þegar þetta er skrifað hafa um 16.500 manns skrifað undir áskorunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×