Íslenski boltinn

Fékk sérmerkt te sent frá Englandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Sam Tillen, leikmaður FH, sagði í viðtali við Daily Mail á dögunum að hann saknaði ensks tes. Enskir teframleiðendur voru fljótir að bregðast við.

Eins og sést á meðfylgjandi te fékk hann vænan skammt sendan frá Englandi af þeirri tegund sem hann saknaði mest.

„Ég held að þetta sé eitthvað menningarlegt. Bretar drekka mjög mikið af te - 4-5 bolla á dag. Ég var spurður í viðtalinu hvers ég saknaði helst. Ég sagði fjölskyldunnar minnar og tesins.“

„Svo þegar ég sótti sendinguna sá ég að þeir voru búnir að sérmerkja einn pakkann með mínu nafni. Það var svolítið furðulegt en stórskemmtilegt.“

Englendingar eru mjög strangir í sinni tegerð og -neyslu. „Það verður að setja pokann út í bollann fyrst og hella svo vatninu. Pokinn er svo tekinn úr eftir nokkrar mínútur og þá hellir maður mjólkinni við,“ segir hann.

„Íslendingum finnst það reyndar skrítið að drekka mjólk út í te. Margir vilja ekki einu sinni mjólk í kaffið,“ segir hann í léttum dúr.

Sam segir að margir drekki te yfir boltanum í sjónvarpinu. „Í hálfleik kveikja allir á katlinum á sama tíma og þá stóreykst rafmagnsnotkun þjóðarinnar, þannig að eftir er tekið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×