Íslenski boltinn

Þorvaldur ætlaði að hætta í haust

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli

Brynjar Jóhannesson, formaður knattspyrnudeildar Fram, segist stefna að því að ganga frá ráðningu nýs þjálfara á morgun.

Þorvaldur Örlygsson hætti sem þjálfari Fram nú í kvöld en hann fór fram á að verða leystur frá störfum.

„Við féllumst á þessa beiðni hans. Það var ekkert flókið við hana, Þorvaldur fór bara fram á að hætta,“ sagði Brynjar.

„Hann var í raun hættur í haust. En þegar ég kom aftur inn í stjórnina ásamt öðrum fengum við hann til að halda áfram. Við þvinguðum hann í raun til þess. Hann sinnti starfinu mjög vel.“

„En svo bað hann um að fá að hætta nú og var það allt í góðu. Hann hefur staðið sig vel fyrir okkur í gegnum árin. Sjálfsagt hefur honum fundist þetta tímabært og telur réttast að einhver annar taki við.“

Brynjar segir að félagið sé nú að vinna að ráðningu nýs þjálfara. Stefnt verði að því að ganga frá henni strax á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×