Fótbolti

Leikmenn áttuðu sig á formleysi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson. Fréttablaðið/Anton

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hefur jafnan staðið sig vel á árlegu æfingamóti á Algarve í mars. Í ár voru úrslitin óvenjuslæm og kvisaðist út óánægja leikmanna með þá ákvörðun landsliðsþjálfarans að láta leikmenn þreyta þrekpróf á leikdögum liðsins.

Þjálfarinn, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, segir að sér og aðstoðarmönnum sínum hafi fundist ákveðnir leikmenn í lélegu formi. Vissulega hafi leikmenn verið á undirbúningstímabilinu en samanburðurinn við marsmánuð árin á undan hafi verið slæmur. Um áhyggjuefni hafi verið að ræða enda stórmót framundan, lokakeppni Evrópumótsins í Svíþjóð.

„Sumir leikmenn voru ekki sammála því," segir Sigurður Ragnar um skoðun þjálfaranna að form leikmanna væri verra en áður. Planið hafi verið að láta leikmenn spila með púlsklukkur í leikjunum á Algarve en öllum liðum hafi verið bannað að gera það.

„Eina leiðin til að fá grun okkar staðfestan var að setja leikmenn í þolpróf," segir Sigurður. Þá hafi komið sér vel að hópurinn var stærri en nokkru sinni fyrr en 23 leikmenn fóru með liðinu til Algarve.

„Þeir leikmenn sem byrjuðu inn á í leikjum sama dag fóru ekki í þolpróf þann daginn," segir landsliðsþjálfarinn. Niðurstöður prófanna hafi staðfest grun þjálfaranna.

„Leikmennirnir sem við töldum ekki í nógu góðu formi komu illa út í prófinu," segir Sigurður. Síðan þá hafi verið unnið áfram með þolpróf og púls leikmanna skoðaður.

„Leikmenn tóku þessu ekkert alltof vel úti á Algarve en þær áttuðu sig betur á stöðunni. Þær fengu svart á hvítu hvar þær stóðu. Síðan hefur form leikmanna almennt batnað."


Tengdar fréttir

Kynslóðaskiptin fyrr en reiknað var með

"Fókusinn hefur verið á það neikvæða. Einblínt hefur verið á úrslit leikja og þau mistök sem gerð hafa verið,“ segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×