Enski boltinn

Ég var heimskur og barnalegur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Townsend í baráttunni við Jordi Gomez.
Townsend í baráttunni við Jordi Gomez. Nordicphotos/AFP

Knattspyrnumaðurinn Andros Townsend, sem dæmdur var í fjögurra mánaða keppnisbann á dögunum vegna veðmála, segir um barnaskap hafa verið að ræða.

Townsend þurfti að draga sig út úr 21 árs landsliðshópi Englands sem stendur þessa dagana í ströngu á Evrópumótinu í Ísrael. Hann viðurkenndi að hafa veðjað á leiki í vetur þegar hann lék með QPR sem lánsmaður frá Tottenham.

„Mér leiddist og í sjónvarpsauglýsingum var hvatt til þess að veðja á leikina sem maður var að horfa á. Ég hlóð því niður appi fyrir farsíma og byrjaði að leggja smápeninga undir til þess að gera áhorfið skemmtilegra," sagði Townsend.

„Þetta var ótrúlega barnalegt af mér og ég gerði mér ekki grein fyrir að ég væri að gera eithvað rangt. Ég hélt að þetta væri í lagi á meðan á veðjaði ekki á leiki míns eigins liðs," segir Townsend.

Englendingurinn fullyrðir að ekki hafi verið um hagræðingu úrslita að ræða. Hann blés einnig á sögusagnir þess efnis að hann hefði veðjað á að Arsenal, erkifjandi Tottenham, hafnaði ofar í deildinni.

„Ég var heimskkur og er reiður út í sjálfan mig því ég hef alltaf verið stoltur af hegðun minni inni á vellinum," segir Townsend.

Þrír mánuðir af banninu eru skilorðsbundnir til ársins 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×